Auglýsa stöðu framkvæmdastjóra í fyrsta sinn
„Við þurfum alltaf að halda áfram og sækja fram. Þetta er byrjunin,“ segir Rúnar V. Arnarson, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB). Bandalagið auglýsir nú í fyrsta sinn stöðu framkvæmdastjóra. Um er að ræða 50% starf.
ÍRB var stofnað í lok maí árið 1996, fagnar því 30 ára afmæli á árinu. Aðildarfélögin eru 16 talsins. Þau eru: Akstursfélag Suðurnesja, Borðtennisfélag Reykjanesbæjar, Frisbígolffélag Suðurnesja,Golfklúbbur Suðurnesja, Knattspyrnufélagið Hafnir, Hnefaleikaféalg Reykjaness, Keflavik - íþrótta- og ungmennafélag, Siglingafélagið Knörr, Hestamannafélagið Máni, Nes - íþróttafélag fatlaðra, Ungmennafélagið Njarðvík, Pílufélag Reykjanesbæjar, Knattspyrnufélagið RB, Stimpill akstursíþróttafélag, Sunddeild ÍRB og Vélhjólaíþróttafélag Reykjaness.
Rúnar segir að unnið hafi verið að þessum áfanga síðastliðin 3-4 ár. Hann kom inn á nauðsyn þess að ráða framkvæmdastjóra í ársskýrslu ÍRB í júní 2025. Þar sagði hann stjórnina ekki komast yfir nema brot af því sem bandalagið eigi að gera.
„Það er langt frá því að ÍRB geti veitt þá þjónustu og rekið þá starfsemi sem því ber að veita eins og er í öðrum stórum bæjarfélögum. Starfsemin hefur stóraukist og lendir á sjálfboðaliðum að sinna því sem þeir komast yfir. Það er ekki orðið boðlegt lengur, ,“ skrifaði hann og kallaði eftir því að sveitarfélagið geri bandalaginu kleift að ráða starfsmann og opna skrifstofu til að gera því kleift að sinna því sem bandalagið á að sinna.
Segja nauðsynlegt að ÍRB geti ráðið starfsmann
Nú hefur bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkt að greiða laun framkvæmdastjóra á núverandi fjárhagsáætlun og var því ráðist í að auglýsa stöðuna.
Vilja þéttara samstarf við bæjaryfirvöld
Rúnar segir stjórnarfólk ÍRB hafa heimsótt fjölda íþróttahéraða upp á síðkastið til að kanna starfsemi þeirra, svo sem á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Akranesi. Þar hafi komið í ljós að ótvíræður kostur fylgi því að hafa stöðu framkvæmdastjóra, það bæti starfið og þétti samstarfið við bæjaryfirvöld, líkt og á Akranesi.
„Við gerðum okkur grein fyrir því að við höfum ekki verið að sinna mörgum af því sem við hefðum þurft að sinna. Við erum í raun langt á eftir og þurfum að fylgja öðrum stórum sveitarfélögum eftir. Það er því engin launung að við horfum til þess að gera þetta að fullu stöðugildi,“ segir Rúnar og bætir við að margt sé í farvatninu sem geti bætt íþróttastarf á Suðurnesjum, svo sem skoðun á kostum og göllum sameiningar ÍRB við Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS).
Innan ÍS eru níu félög, þar á meðal Ungmennafélagið Þróttum Vogum og Ungmennafélag Grindavíkur.
„Þetta er byrjunin og við erum afar þakklát að bærinn hafi sýnt þessu skilning. Nú sækjum við áfram,“ segir hann.
ÍS varð sambandsaðili UMFÍ undir lok árs 2023 og ÍRB um mitt ár 2024. Sambandsaðilar UMFÍ eru nú 26 talsins sem skiptast í 25 íþróttahéruð og eitt ungmennafélag með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ, þar á meðal öll íþróttafélög á Íslandi.
Á myndinni hér að ofan er Rúnar ásamt Rakel Másdóttur, sem var fulltrúi UMFÍ á aðalfundi ÍRB í fyrra.
Auglýsingu ÍRB má sjá hér að neðan.
ÍRB auglýsir eftir framkvæmdastjóra
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB) auglýsir eftir framkvæmdastjóra í 50% stöðugildi. Um er að ræða spennandi starf í lifandi umhverfi íþróttamála í sveitarfélaginu. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, að því er segir í auglýsingu.
ÍRB var stofnað í lok maí árið 1996 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári. Þetta verður í fyrsta sinn sem bandalagið ræður starfsmann.
Helstu verkefni
- Daglegur rekstur og utanumhald á starfsemi ÍRB.
- Samskipti og samstarf með aðildarfélögum ÍRB og hagaðilum.
- Framkvæmd og skipulag á viðburðum á vegum ÍRB.
- Samstarf með stjórn ÍRB auk annarra tilfallandi verkefna.
Hæfniskröfur
- Menntun sem nýtist í starfi.
- Reynsla af störfum innan íþróttahreyfingarinnar skilyrði.
- Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð.
- Mikil hæfni í mannlegum samskiptum.
- Góð tölvukunnátta er skilyrði.
Umsóknir berist til: irb@irb.is.
Umsóknarfrestur er til og með 31. janúar 2026.