Fara á efnissvæði
23. apríl 2025

Er kominn tími á að sameina íþróttafélög?

Skoða á mögulega sameiningu íþróttafélaga í því skyni að hagræða innan íþróttahreyfingarinnar og létta álagi á þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem sæti eiga í stjórnum íþróttafélaga. Í stjórnum sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélögum um allt land sitja 7.365 einstaklingar. Ef greitt væri fyrir fyrir stjórnarstörfin með sama hætti og greitt er fyrir nefndarsetu hjá sveitarfélögum þá gæti kostnaðurinn numið 1,8 til 3,6 milljörðum króna á ári.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umfjöllun í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Fjallað er um fjölda stjórnarfólks í nýjasta tölublaðinu.

Í blaðinu kemur líka fram fjöldi stjórnarfólks eftir landssvæðum:

  • 2.427 á höfuðborgarsvæðinu.
  • 1631 á Norðurlandi.
  • 1.082 á Suðurlandi.
  • 622 á Austurlandi.
  • 592 á Vesturlandi. 
  • 544 á Vestfjörðum.
  • 467 á Suðurnesjum.  

Karlar í stjórnum íþróttafélaga eru 4.107 og konurnar 3.256. 

Í blaðinu eru fjöldi stjórnarfólks gaumgæfður niður í sambandsaðila um allt land.

Upplýsingarnar eru úr skilakerfi íþróttahreyfingarinnar, sem forsvarsfólk íþróttafélaga og íþróttafélaga sendir inn. Í sumum tilvikum er skráningin ekki endanleg og því liklegt að fjöldi stjórnarfólks sé vantalinn. Unnið er að því að ná utan um fjölda þeirra sem sinna sjálfboðaliðastarfi með formlegum og skipulögðum hætti í íþróttahreyfingunni. Til viðbótar við þennan fjölda er sá mikli fjöldi fólks sem tekur að sér einstök verkefni við mótahald eða annað slíkt.

 

Íþróttakennarinn bætir ekki við sig aukavinnu

Gunnar Gunnarsson, sem sæti á í stjórn UMFÍ, skrifar í leiðara blaðsins að sveitarfélög hafi verið sameinuð grimmt  undanfarna áratugi undir merkjum þess að ná fram hagræðingu og sérhæfingu í krafti stærðar. Það sama þekkist líka innan félagasamtaka, svo sem í deildum Rauða krossins. Lítið hafi hins vegar gerst í sameiningu íþróttafélaga. 

Gunnar bendir á að stjórnun íslenskra íþrótta- og ungmennafélaga fari að miklu leyti fram í sjálfboðaliðastarfi. Kröfurnar hafi aukist undanfarin ár. Það styrki umgjörð íþróttahreyfingarinnar en geti vissulega haft fælandi áhrif á þátttöku sjálfboðaliða. 

„Vísbendingar eru um þessa þróun enda þarf ekki að leita lengi að  fólki sem segir að sífellt erfiðara verði að fá fólk til að taka þátt í sjálfboðaliða starfi. Þegar fólk fær svo nóg leggst félag viðkomandi í dvala,“ skrifar hann og bætir við að á mörgum svæðum á landsbyggðinni séu miklar áskoranir um það eitt að halda uppi íþróttastarfi. 

„Sá tími er liðinn að íþróttakennari staðarins sé tilbúinn að bæta á sig aukavinnu við þjálfun. Þvert á móti er vandamálið nú að fá íþróttakennara til starfa. Vopnfirðingar, til dæmis, hafa reynt það undanfarin ár. En hvað er til ráða? Leggja má til að skilgreina þurfi hvers konar þjónustu og íþróttaæfingar eigi eða þurfi að vera í boði. Leita þarf  leiða til að tryggja fjölbreytni um allt land enda  finna sig ekki öll í sömu íþróttinni. Úrval íþróttastarfs hefur áhrif á val á búsetu. Þannig væri beinlínis byggðaaðgerð að vinna að því að tryggja slíkt framboð. En hvernig? Geta félög sameinast um að ráða þjálfara sem ferðast á milli staða? Næsta skref væri að sameina íþróttafélög. Við þurfum að ræða það á hreinskilinn hátt,“ skrifar hann.  

 

Nauðsyn að styðja við hagræðingu

Gunnar bendir á sambandssvæði sitt sem dæmi, þar sitji 360 einstaklingar í stjórnum félaga. 

„Ég er á sambandssvæði Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA). Innan þess eru 40 aðildarfélög á svæði með um 11.500 íbúa og um 3.500 iðkanir (iðkandi getur verið í nokkrum greinum), eins og fram kemur í tölfræðigrunni íþróttahreyfingarinnar. Í þeim tölum kemur líka fram að í stjórnum aðildarfélaga UÍA eru 360 manns. Að einhverju leyti eru þar líka stjórnendur deilda. Á Akureyri búa tæplega 20.000 íbúar. Innan vébanda Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) eru skráðir 239 stjórnarmenn og tæplega 9.000 iðkanir,“  skrifar hann og dregur þá ályktun að líklega geti stærri félög ráðið starfsmann til að taka álagið af sjálfboðaliðunum, sem myndi fjölga á ný. 

„Fá félög á Austurlandi eru með framkvæmdastjóra, nokkrir eru til í deildum. En þarf ekki að hugsa þetta upp á nýtt? Ríkið hefur ýtt undir sameiningu sveitarfélaga með fjárhagslegri aðstoð. Spurning er hvort skoða þurfi hvort landssamtökin, ríki eða sveitarfélög geti með einhverju móti stutt við nauðsynlega hagræðingu innan íþróttahreyfingarinnar.“

 

Nýjasti Skinfaxi

Hægt er að lesa alla umfjöllunina í nýjasta tölublaði Skinfaxa hér að neðan.

Á meðal annars efnis í blaðinu: 

  • Stjórnir sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélaga í tölum.
  • Stjórnir í tölum og upphæðum.
  • Hver króna verður að fjórum í íþróttum.
  • Skólabúðalag vekur athygli á Reykjum.
  • Varðveitti UMFÍ-jakka í rúm 40 ár.
  • Krefst hugrekkis að fagna fjölbreytileikanum: Viðtal við Timothy Kennedy Shriver.
  • Heimsleikar Special Olympics í hnotskurn.
  • Nám um störf sjálfboðaliða langt á veg komið.
  • Vilja auka réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Árangurinn hvílir allur á starfi yngri flokka. 
  • Börn tóku skóflustungu að nýju íþróttahúsi í Borgarnesi. 
  • Ekki missa af viðburðum UMFÍ í sumar.
  • Tækifæri geta falist í sameiningu. 
  • 20 milljónum króna úthlutað úr Hvatasjóði. 
  • Konur og íþróttir - Baráttudagur kvenna.
  • Gamla myndin: Fjölbreytt afþreying í sumarbúðum UMFÍ á Reykjum.
  • Hvað er að frétta? ÍBV spennt fyrir UMFÍ.