Fara á efnissvæði
13. september 2025

Fer út í búð og spjallar við ókunnuga

„Ég fer út í búð á hverjum einasta degi og lendi þar í alls konar ævintýrum. Ég fór að gera tilraunir og spjalla við fólk, ókunnuga sem ég þekki ekki neitt. Ég brosi líka til fólks í búðinni. Sá sem brosir í búð kemur heim með pokana sína og brosir til barnanna sinna. Þá verður allt betra,“ segir dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. 

 

Ungt fólk og lýðheilsa

Viðar flutti fyrirlestur um félagslega töfra, áhrif þeirra, gildi þeirra í samfélaginu og áskoranir, á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðheilsa, sem fram fer á Reykjum í Hrútafirði um helgina. Um áttatíu ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára frá öllu landinu mættu í Hrútafjörðinn í gær til að taka þátt í ráðstefnunni, sem hefur verið haldin á vegum UMFÍ og ungmennaráðs UMFÍ um nokkurra ára skeið. Ungmennaráðið skipuleggur ráðstefnuna, sem stendur fram á sunnudag. 

Ráðstefnan hefur það markmið að hvetja ungt fólk til þátttöku í félagsstarfi íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar á nýjan hátt, ekki aðeins með því að mæta á hefðbundnar íþróttaæfingar. Ráðstefnunni er ætlað að efla og viðhalda félagslegum töfrum ungs fólks - efla og styrkja félagslega heilsu þess. Að auki felur viðburðurinn í sér hellings hópefli, líkamlega hreyfingu og afþreyingu. Viðburðurinn tekur því á öllum hliðum lýðheilsu, þ.e. líkamlegri-, andlegri- og félagslegri heilsu. 

Ráðstefnan hófst í gær með ávarpi Höllu Margrétar Jónsdóttur, formanns ungmennaráðs UMFÍ. Þar var líka brugðið á leik og skipt í hópa, sem þátttakendur verða hluti af alla helgina. Viðar var með fyrirlestur og stýrði vinnustofu um félagslega töfra í dag. Á morgun kemur fjöldi stjórnmálafólks og sveitarstjórnarfólks í kaffihúsaspjall og setjast allir þátttakendur niður með þeim í spjall.

 

Brosum til annarra útí búð

Viðar lagði áherslu á gildi beinna samskipta fólks augnliti til augnlitis í stað funda og samskipta í gegnum samvinnutól, netfundi, myndagláp í símum og samskipta á spjallforritum. Eins mælti hann með því að fólk spjallaði í meiri mæli hvert við annað í búðaferðum, heilsaði fólki sem það þekkir ekki og brosum.

„Við erum að versla í gegnum skjá, vinna í gegnum skjá, lesa fréttir, horfa á fréttir og myndir. Samfélagslegu straumarnir eru þeir að allir eru að gera allt í gegnum skjá. Meira að segja að horfa á myndir á skjá í stað þess að fara í bíó með öðrum. Allt gerist meira í gegnum skjá en í raunverulegum samskiptum og algóritmarnir ýta að okkur efni og gefa okkur brenglaða sýn á veruleikann. Fyrirtækin sem eiga samfélagsmiðlana græða á okkur og selja okkur vörur og þjónustu. Þessi fyrirtæki nota sömu tækni og spilavíti. Þau eru búin að pæla þetta allt út,“ sagði Viðar og lýsti því fyrir ráðstefnugestum að hann hafi fyrir nokkru síðan tekið alla samfélagsmiðla út úr síma sínum, hætt að nota nokkra og fari aðeins á valda miðla í tölvu. Á móti hafi hann tekið með meðvituðum hætti upp á því að tala meira við fólk, auka samskipti sín við fólk, fara frekar út í búð en að versla á Netinu og fara frekar á kassa í verslun en í sjálfsafgreiðslu.

 

Lykillinn að hamingjunni

„Þetta eru félagslegu töfrarnir. Góð samskipti gera okkur hamingjusamari. Hamingjan byggir á þessu, þessari virkni í félagslegum samskiptum. Hellingur af rannsóknum sýnir fram á það,“ hélt hann áfram og benti á að góður árangur í íþróttum byggi ekki að öllu leyti á hæfileikum. Skýringuna megi finna í samneyti við aðra.

„Þeir nemendur sem fá betri einkunnir eru ekki þeir sem læra meira heldur þau sem eiga í góðum félagslegum samskiptum. Í bíósalnum finnum við líka fyrir meiri samkennd. Við heyrum hlátur annarra og verðum hluti af einhverju stærra og merkilegra,“ sagði hann og benti reyndar á að ungmennafélagsandinn sé táknrænn fyrir félagslegu töfrana.

Hann kynnti til sögunnar andann, sem búið var að setja á lítinn spreybrúsa með glimmeri og var áherslum UMFÍ.

„Þetta er táknrænt fyrir töfrana, endilega notið þá á aðra,“ sagði hann og hvatti fólk til aukinna félagslegra samskipta með markvissum hætti. Það sé lykillinn að hamingjunni.

 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá ráðstefnunni. Fleiri myndir má sjá á samfélagsmiðlum og myndasíðum  UMFÍ:  

Facebook

Instagram

Flickr