Fjögur íþrótta- og ungmennafélög hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ sem nú stendur yfir. Þetta eru Ungmennafélagið Vísir í Suðursveit, Ungmennafélag Reykdæla, Íþróttafélagið Undri í Dalabyggð og heilbrigðisteymi Skautafélags Akureyrar.
Formenn íþróttahéraða sem félögin eiga aðild að tóku við Hvatningarverðlaununum úr hendi Jóhanns Steinars Ingimundarsonar, formanns UMFÍ.
Bjarna Malmquist Jónsson, tók við verðlaunum fyrir hönd Ungmennafélagsins Vísis, en hann er líka formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts, sem félagið á aðild að.
Gunnhildur Gunnarsdóttir tók við Hvatningarverðlaununum fyrir hönd Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) í fjarveru Guðrúnar Hildar Þórðardóttur, sambandsstjóra UMSB.
Jóhanna Sigrún Árnadóttir, formaður Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) tók við verðlaunum fyrir hönd sambandsins.
Jóna Jónsdóttir, formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) tók við verðlaununum fyrir hönd bandalagsins.
Ungmennafélagið Vísir
Ungmennafélagið Visir í Suðursveit hefur vakið heilmikla eftirtekt upp á síðkastið fyrir ótrúlegan samtakamátt heimafólks en þar hefur nær hvert einasta mannsbarn í sveitinni lagt hönd á plóg til að gera frjálsíþróttavöll, sem mun án nokkurs vafa efla áhuga á hreyfingu og greininni í sveitinni.
Landinn gerði á dögunum afar skemmtilegt innslag um völlinn, sem vakti mikla eftirtekt.
En fleiri undur og stórmerki eiga sér stað hjá ungmennafélaginu Vísi. Þar hefur borðtennisiðkun aukist mikið upp á síðkastið og á félagið nýjasta liðið í deildarkeppninni í borðtennis.
Ungmennafélag Reykdæla
Ungmennafélag Reykdæla er kannski lítið félag – en það er borið uppi af svo miklu hugsjónafólki sem hugsar út fyrir rammann að starfið hefur sprungið út.
Á síðasta ári voru um 80 iðkendur hjá félaginu í allskonar greinum sem í boði voru. Skráningar í greinar voru um 120 þar sem iðkendur tóku þátt í fleiri en einni grein. Þetta er eftirtektarvert og til fyrirmyndar enda um tvöföldun frá fyrri árum. Ljóst er að þetta litla félag gerði iðkendum víðs vegar að úr Borgarfirði mögulegt að finna eitthvað við sitt hæfi.
Ljóst er að framboð greina er heilmikið miðað við hina frægu höfðatölu fyrir alla iðkendur á grunnskólaaldri. Þar að auki gerir félagið vel við iðkendur og hefur keypt treyjur fyrir allan hópinn. Með því móti er dregið úr kostnaði foreldra og tryggt að allir iðkendur verði með.
Starf Ungmennafélags Reykdæla byggir að stórum hluta á einstaklingsframtaki, vilja, drifkrafti, góðu fólki og góðum þjálfurum.
Íþróttafélagið Undri
Íþróttafélagið Undri var stofnað árið 2021 til að taka á móti öllum börnum í íþróttir í Dalabyggð. Félagið er því samansett úr sex öðrum félög úr Dalabyggð með það að markmiði að festa íþróttaiðkun í Dalabyggð betur í sessi og geta haldið úti skipulagðri starfsemi fyrir alla aldurshópa.
Starfið hefur verið mjög metnaðarfullt og vaxið og dafnað síðan það var stofnað þrátt fyrir lítinn sem engan húsakost, fámenni, dreifða iðkendur og skort á þjálfurum.
Markmið félagsins hefur frá fyrsta degi verið að bjóða upp á eins fjölbreytt starf og kostur er hverju sinni þannig að öll geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Að félaginu stendur samheldinn og kraftmikill hópur sem hefur keyrt starfið áfram af mikilli hugsjón og hefur sýnt að þegar fólk leggst á eitt er ýmislegt hægt.
Skautafélag Akureyrar
Framlag heilbrigðisteymis Skautafélags Akureyrar til öryggis og velferðar iðkenda og gesta í Skautahöllinni á Akureyri er ómetanlegt.
Heilbrigðisteymið var stofnað haustið 2023 að frumkvæði Jóhanns Þórs Jónssonar, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanns. Það hefur frá fyrsta degi starfað á sjálfboðaliðagrunni. Í teyminu eru í dag um 14 einstaklingar, flestir foreldrar iðkenda, sem allir starfa í heilbrigðisgeiranum – læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn og sjúkraliðar.
Teymið stóð vaktina á sínum fyrsta vetri á 53 viðburðum og náði nánast alltaf að manna vaktir. Teymið er á öllum heimaleikjum skautafélagsins – bæði hjá meistaraflokkum og yngri flokkum – auk þess að sinna helgarmótum.
Of langt mál er að telja upp alla vinnu og kosti heilbrigðisteymisins, sem hefur brugðist við þegar óhöpp og veikindi hafa komið upp í röðum leikmanna og áhorfenda auk þess að halda skrá yfir öll óhöpp sem verða í leikjum og á æfingum sem nýtist félaginu við að greina umfang og eðli meiðsla.