Foreldrar skemmtu sér í strandblaki á Unglingalandsmóti

„Þetta var rosalega gaman og enginn tognaði, bognaði eða sleit neitt,“ segir Silja Úlfarsdóttir, verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ. Hún stýrði strandblaki foreldra á mótinu í gær. Greinilega er að foreldrar vilja keppa eins og börnin því næstum fjörutíu foreldrar mættu í strandblakið. Skipt var upp í fimm lið.
Sjúkrabílar og læknar voru á kantinum enda meiri líkur á að fullorðnir slasi sig þegar það ræður ekki við kappið.
„Það skemmtilega við strandblakið var að foreldrar óskuðu eftir því að fá að taka þátt í mótinu með öðrum hætti og keppa líka. Við hlustuðum og brugðumst við. Fólki fannst rosalega gaman og vill fá foreldragreinar aftur,“ segir Silja.
Á sama tíma var keppni að ljúka í nokkrum af þeim rúmlega 20 greinum sem boðið var upp á á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.
Á myndunum sem hér fylgja má sjá hluta af kampakátum foreldrahópnum, sem ætlar að hittast aftur þegar Unglingalandsmótið fer fram á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina 2026.


