Fara á efnissvæði
19. maí 2025

Fyrrverandi forseti ÍSÍ sæmdur Gullmerki UMFÍ

Lárus Blöndal, fyrrverandi forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), var sæmdur Gullmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt starf til langs tíma fyrir íþróttahreyfinguna. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti Lárusi merkið undir lok ávarps síns við setningu Íþróttaþings ÍSÍ á föstudag.

Jóhann sagði í ávarpi sínu að með starfi ÍSÍ og UMFÍ hafi hann eignast góðan og traustan vin sem gott sé að starfa með og leita til þegar á þarf að halda og takast á við um útfærslur og úrlausn mála. 

„Íþróttahreyfingin hefur stigið stór framfaraskref á starfstíma Lárusar Blöndal, fráfarandi forseta ÍSÍ,“ sagði Jóhann Steinar. „Framfarirnar endurspeglast í meiri samvinnu innan íþróttahreyfingarinnar en við höfum áður séð og eftirtektarverðum samningum við stjórnvöld.“

Jóhann sagði vegi þeirra Lárusar hafa legið lengi saman. 

„Á þeim tíma hef ég skynjað að íþróttaandinn og persónuleikinn tvinnist vel saman í honum. Hann er nefnilega alltaf til í að leggja allt sitt af mörkum, taka ábyrgð og taka af skarið, þegar á þarf að halda. Það er nákvæmlega sama hugarfar og afreksíþróttafólkið okkar þarf að tileinka sér,“ bætti hann við en lagði áherslu á að hann vildi nota tækifærið til að þakka eiginkonu Lárusar, Soffíu Ófeigsdóttur, og dætrum þeirra umburðarlyndið, þolinmæðina og skilninginn fyrir þann ómetanlega tíma sem hann hefur þurft að ganga á gagnvart fjölskyldunni. 

„Við öll sem störfum í íþróttahreyfingunni vitum hversu nærri við göngum þeim sem næst okkur standa þegar við sinnum sjálfboðastarfi og uppfyllum þessa miklu félagsþörf okkar,“ sagði Jóhann Steinar þegar hann afhenti Lárusi Gullmerki UMFÍ.