Gestir flykkjast í góða veðrið á Egilsstöðum

Þátttakendur á Unglingalandsmóti UMFÍ og fjölskyldur þeirra hafa flykkst til Egilsstaða í dag. Veðrið er með eindæmum hæglátt og gott veður og bjart yfir öll. Sérstök tjaldsvæði voru útbúin fyrir allan þann fjölda sem skráður er til leiks.
Þátttakendur eru tæplega 1.100 talsins og ljóst að nokkuð þúsund manns verður á Egilsstöðum á meðan Unglingalandsmótinu stendur um verslunarmannahelgina.
Veðurspáin er líka afskaplega jákvæð enda Egilsstaðir svo til eini staður landsins þar sem ekki þarf að húka innandyra til að njóta veðurblíðunnar.
Hér má sjá nokkrar myndir af þátttakendum sækja mótsgögn sín og gesti sem hafa komið sér fyrir á tjaldsvæðinu.
Íris og Linda Björk frá Héraðssambandi Skarphéðins (HSK) voru á meðal kampakátra gesta sem náðu í mótsgögn sín í þjónustumiðstöð Unglingalandsmótsins. Þau Adam og Sigurbjörg Hvönn voru svo á meðal þeirra sem leiðbeindu mótsgestum um eitt af tjaldsvæðum mótsins.
Mótið hófst í dag með keppni í golfi, sem er afar vel sótt. Síðdegis fer svo fram keppni í krakkahreysti.
Eins og ætíð hafa orðið einhverjar breytingar a dagskránni. Allar breytingar er hægt að sjá á umfi.is undir hverri keppnisgrein. Þátttakendur í einstökum greinum hafa jafnframt fengið skilaboð um breytingar á skipulagi.


