Golfhermir leiddi til mikillar fjölgunar iðkenda

Formannafundur Héraðssambands Bolungarvíkur (HSB) var haldinn á fimmtudag í Bolungarvík, en ársþing HSB er haldið annað hvert ár og var haldið í fyrra. Mæting var góð og mættu fulltrúar frá stjórnum félaganna tveggja, Golfklúbbs Bolungarvíkur og Ungmennafélags Bolungarvíkur, ásamt stjórnarmeðlimum HSB og svæðisfulltrúum íþróttahéraðanna.
Á dagskrá fundarins var yfirferð ársreiknings HSB, formenn félaga sögðu frá starfinu og ýmis önnur mál.
Fram kom á fundinum að hjá Golfklúbbnum hafi verið mikil uppbygging undanfarið ár, miklar framkvæmdir hafa verið í gangi og eru langt komnar. Nýr golfskáli og golfhermir hefur blásið nýju lífi í starfið en iðkendum fjölgaði úr 35 í 100 á síðasta ári. Þeir eru nú orðnir 110 talsins. Heilmikil bylting þykir fyrir golfara að geta spilað allt árið. Það hefur líka laðað að nýja félagsmenn. Klúbburinn hefur líka haldið úti gjaldfrjálsum æfingum fyrir börn, bæði í golfhermi yfir veturinn og á vellinum yfir sumarið. Þá er klúbburinn iðinn við mótahald og þátttöku í mótum.
Ný stjórn golfklúbbsins tók til starfa í fyrra.
Formaður Ungmennafélags Bolungarvíkur (UMFB) sagði frá nýrri borðtennisdeild sem hefur gengið vel. Aðstaða var fengin í grunnskólanum og borð keypt fyrir æfingar. Keppendur frá UMFB fóru á Íslandsmót unglinga í vetur og gekk þeim vel þar. Einn komst á pall. Framundan er opið mót í lok maí og er allt á uppleið. Sunddeild UMFB er öflug, deildin heldur Vestfjarðameistaramót á hverju ári og taka þátt í öðrum mótum. Þau hafa einnig farið í æfingarferðir, svo sem á Vestfjörðum og unnið er að því að fara til útlanda annað hvert ár.
Sunddeildin telur u.þ.b. 60 iðkendur 18 ára og yngri, sem flestir búa í Bolungarvík. Ýmsar hugmyndir eru á lofti varðandi frekara starf hjá UMFB, stofnun nýrra deilda og verður spennandi að fylgjast með því.
Aukin tækifæri til samstarfs íþróttahéraða
Á formannafundinum sögðu svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna stuttlega frá starfi sínu og verkefnum.
Svæðisfulltrúar sjá aukin tækifæri í eflingu á samstarfi á milli héraða og félaga á svæðinu fyrir öflugara íþróttastarf. Formaður HSB fagnaði auknu samstarfi milli héraða á svæðinu. Komið hefur verið á fót föstum samráðsfundum svæðisfulltrúa og stjórnum héraða. Mörg tækifæri eru fyrir íþróttahreyfinguna á Vestfjörðum og með auknu samstarfi opnast fjölmargir möguleikar sem verður öllu svæðinu til heilla.