Hatursorðræða skýtur upp kollinum á borði samskiptaráðgjafa
Embætti samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi tók til starfa árið 2020. Hægt er að tilkynna til embættisins óæskileg mál af ýmsum toga. Betra er að grípa í taumana fyrr en seinna, að sögn Kristínar Skjaldardóttur samskiptaráðgjafa.
„Hatursorðræða er að koma æ oftar upp hjá okkur og við munum setja inn nýtt efni um viðbrögð við henni í verkfærakistuna, sem og í viðbragðsáætlun,“ segir Kristín Skjaldardóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þessi málaflokkur hefur aukist talsvert frá því embættið tók til starfa árið 2020.
Málin sem hafa komið inn á borð embættisins hafa breyst nokkuð í gegnum tíðina. Einelti hefur því miður verið stór hluti málanna en stafrænt ofbeldi jókst töluvert í fyrra og er það nú talið sérstaklega fram í tölfræði embættisins. Á sama tíma komu fyrstu málin tengd hatursorðræðu á borð embættis samskiptaráðgjafa.
Hættir frekar en að tilkynna
Kristín segist hafa heyrt að fólk tilkynni almennt ekki hatursorðræðu. Það hætti frekar í starfi eða iðkun og fari annað.
„Það finnst okkur miður, því það er hægt að vinna með þetta,“ segir hún og bendir á að eftir því sem fleiri viti um embætti samskiptaráðgjafa sem leið til að tilkynna um ofbeldisbrot og aðra neikvæða hegðun, því fleiri verði tilkynningarnar.
„Við vorum með eitt félag sem fór í allsherjarvinnu vegna hatursorðræðu og fékk okkur inn ásamt öðrum fagaðilum. Hvorki stjórnendur, sjálfboðaliðar eða iðkendur liðu neikvæða hegðun eins og þá sem var unnið með. Niðurstaðan var að iðkendur félagsins skrifuðu undir samskiptasáttmála, sem var prentaður út og hengdur upp í íþróttahúsi félagsins,“ segir hún. Með þessu móti jókst þekking starfsfólks, iðkenda, foreldra og félagsfólks bæði á góðri hegðun og embætti samskiptaráðgjafa.
„Nú vita áhorfendur að brjóti þeir sáttmálann þá verður þeim vísað út. Ef iðkandi er uppvís að broti þá getur hann lent í agabanni. Til viðbótar er sífelld fræðsla fyrir bæði iðkendur, foreldra og fleiri. Markmiðið er að starf íþróttafélagsins gangi ekki út á neikvæð samskipti heldur íþróttina,“ segir Kristín og leggur áherslu á að fólk verði að vera vakandi fyrir stafrænum samskiptum og mögulegum afleiðingum ofbeldis.
Grípa strax í taumana
Misjafnt er hvernig félögin vinna mál sem koma upp hjá þeim. Það ræðst af stærð félaganna og því hvort launaðir starfsmenn séu hjá þeim eður ei.
„Launaðir starfsmenn geta sinnt málum sem koma upp að einhverju leyti. En í minni félögunum eru meiri líkur á tengslum fólks sem málið varðar og þá verður allt erfiðara viðureignar. Í öllum tilvikum er betra að kalla okkur að borðinu fyrr en seinna,“ segir Kristín.
Viðbragðsáætlun fyrir mörg mál
Embætti samskiptaráðgjafa gaf út viðbragðsáætlun í ýmsum málum fyrir nokkrum misserum síðan. Viðbragðsáætlunin var unnin í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal UMFÍ.
Í viðbragðsáætluninni eru ýmsir lyklar sem hægt er að grípa til þegar á þarf að halda.
„Viðbragðsáætlunin er lifandi skjal. Við erum alltaf að uppfæra hana. Nú erum við að endurskrifa kafla um ferðalög og gistingu og óskað hefur verið eftir viðbragðsáætlun ef kviknar í,“ segir Kristín og bætir við að fólk hringi stundum eða sendi skeyti og spyrji út í tiltekin mál sem ekki eru í viðbragðsáætluninni. „Við svörum kalli hreyfingarinnar og bætum við viðbragðsáætlunina endrum og eins,“ segir Kristín. Nú eru nokkrir kaflar í vinnslu sem verið er að uppfæra. Það eru mál á borð við ráðningu starfsfólks, uppsagnir og ýmislegt fleira.
„Íþróttafélögin þurfa að kynna viðbragðsáætlunina fyrir sínu fólki og gera hana aðgengilega öllum stundum,“ segir Kristín að lokum.
Engin greiðsla er tekin fyrir þjónustu samskiptaráðgjafa. Þau sem telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða einelti í sínu íþrótta- og æskulýðsstarfi eða eru ekki viss og vilja fá ráðgjöf varðandi slík mál geta haft samband við samskiptaráðgjafa á netfanginu samskiptaradgjafi@samskiptaradgjafi.is eða hringt í síma 839-9100/783-9100.
Lestu meira í Skinfaxa
Viðtalið er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Þú getur smellt á blaðið hér að neðan og lesið Skinfaxa heild sinni á umfi.is.