Heilmikið fjör á Allir með-leikunum
Allir með-leikarnir fara fram í Laugardalshöll laugardaginn 8. nóvember. Þetta er viðburður fyrir börn með fatlanir á grunnskólaaldri.
Þetta er annað skiptið sem Allir með-leikarnir eru haldnir. Þegar þeir voru haldnir fyrir ári mættu rúmlega 100 þátttakendur og í boði voru 5 íþróttagreinar.
Nú er boðið upp á þátttöku í 11 íþróttagreinum. Þær eru: Fótbolti – Handbolti – Körfubolti – Frjálsar íþróttir – Fimleikar – Badminton – Borðtennis – Pílukast – Keila – Klifur – Jazzballett.
Sóli og Sóla lukkudýr Allir með leikana mæta á svæðið.
Allir þátttakendur fá þátttökuverðlaun merkt leikunum og boðið verður upp á Dominos pitsuveislu í hádeginu.
Öll fjölskyldan er velkomin með.
Allir með-leikarnir hafa vakið heilmikla athygli, meira að segja út fyrir landssteina. Á leikana nú mætir fulltrúi Íþróttasambands fatlaðra í Færeyjum til að kynna sér skipulagið og þátttökuna.
Margir koma að leikunum
Allir með-leikarnir eru hluti af verkefninu Allir með sem gengur út á að fjölga tækifærum fyrir börn með fatlanir í íþróttum. Markmið með leikunum er að kynna íþróttir fyrir þessum hópi og um leið að gera verkefnið sýnilegra í samfélaginu.
Allir með-leikarnir eru samstarfsverkefni og koma að því eftirtalin félög: Íþrótta- og Olympíusamband Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélag Íslands (UMFÍ), Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ), Handknattleikssamband Íslands (HSÍ), Fimleikasamband Íslands (FSÍ), Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF).
Allar upplýsingar um viðburðinn má finna á vefsíðunni allirmed.com.