Heimasíða svæðisstöðvanna komin í loftið

„Heimasíðan var gerð til að auðvelda þá miklu vinnu sem farið hefur fram í svæðisstöðvunum frá upphafi og gera efni um íþróttastarf aðgengilegra fyrir forsvarsfólk íþróttahéraða á Íslandi,” segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Austurlandi.
Ný heimasíða svæðisstöðva íþróttahéraðanna fór í loftið á dögunum. Hún er samvinnuverkefni svæðisstöðvanna átta sem eru um allt land, ÍSÍ og UMFÍ. Efni hennar byggir á greiningarvinnu svæðisfulltrúanna, sem leiddi í ljós að skortur var á ákveðnu efni og upplýsingum og því fór hugmynd um heimasíðu fljótt af stað.
Vefslóðin er siu.is
Auk efnis sem unnin eru á svæðisstöðvunum verður á síðunni hægt að nálgast ýmislegt fleira á einum stað á aðgengilegan hátt, sem til er hjá bæði ÍSÍ og UMFÍ. Efnið er fyrir þjálfara, foreldra og fyrir stjórnarfólk í héruðum og í félögum.
Efnisþáttum mun fjölga eftir því sem verkefninu vindur fram.
Svæðisfulltrúar og starfsfólk ÍSÍ og UMFÍ vinna í þremur hópum, sem hver um sig sér um verkfærakistu, stjórnsýslu og kynningarmál. Þessir hópar hafa allir komið að því að skilgreina hvað á að vera á síðunni og unnið efnið sem þar er birt. Tveir starfsmenn svæðisstöðvanna hafa séð um tæknilegu málin.
„Þetta er frábær samvinna þar sem þekking hvers starfsmanns nýtist sem best þegar unnið er svona þvert á sviðin og við vonumst til þess að heimasíðan muni nýtast hreyfingunni vel,” segir Jóhanna Íris, sem sæti á meðal annars í þeim hópi sem sér um kynningarmál svæðisstöðvanna.
Um svæðisstöðvar íþróttahéraðanna
Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna tóku til starfa árið 2024 um allt land. Þær eru átta talsins og eru alla jafna tvö stöðugildi á hverjum stað.
Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Hlutverk þeirra er að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni.
Ítarlegar upplýsingar um svæðisstöðvarnar og starfsfólk um allt land má meðal annars sjá hér:
Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna
Hér að neðan má sjá svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna saman á vinnufundi á dögunum.


