Helena sæmd Gullmerki UMSE

„Okkur vantar ennþá framkvæmastjóra. En förum líklega í samstarf við Dalvíkurbæ um stöðuna,“ segir Þorgerður Guðmundsdóttir, formaður Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE). Ef allt gengur eftir felst lausnin í því að UMSE ræður framkvæmdastjóra í 50% starf á móti Dalvíkurbæ sem mun greiða hinn helminginn fyrir framkvæmdastjóra Ungmennafélags Svarfdæla.
Fjallað var um málið á 104. ársþingi UMSE, sem fram fór í safnaðarheimilinu á Dalvík 3. apríl síðastliðinn. Rétt til þingsetu áttu 40 fulltrúar úr 14 aðildarfélögum UMSE, til þingsins mættu 25 fulltrúar frá 11 aðildarfélögum, auk stjórnarmanna UMSE.
Þingstörf voru hefðbundin.
Samþykktar voru tillögur sem móta starf UMSE næsta árið og þá var kosið í stjórn og varastjórn. Þorgerður, sem kemur frá Ungmennafélaginu Samherjar, var kjörin formaður UMSE, Einar Hafliðason frá Umf. Þorsteini Svörfuði, er galdkerfi, Snæþór Arnþórsson, sem er frá Skíðafélagi Dalvíkur er nýr varaformaður, meðstjórnandi er Kristín Thorberg frá Hestamannafélaginu Funa og ritari Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir frá Blakfélaginu Rimum.
Virkur þátttakandi um árabil
Á þinginu voru veittar viðurkenningar fyrir góðan íþróttaárangur á síðasta ári auk Gullmerki UMSE, sem er veitt þeim einstaklingum sem innt hafa af hendi skipulags-, stjórnar- eða þjónustustörf fyrir UMSE eða aðildarfélög þess um lengri tíma.
Að þessu sinni var Helenu Frímannsdóttur frá Umf. Reyni veitt gullmerki fyrir mikið og gott starf.
Hún hefur lengi verið virkur þátttakandi í íþróttastarfi í Dalvíkurbyggð og unnið mikilvægt starf fyrir íþróttahreyfinguna á svæðinu. Hún hefur setið í stjórn ungmennafélagsins Reynis um árabil og gegnir nú hlutverki varaformanns. Helena hefur líka verið virkur félagi í blakfélaginu Rimum og fimleikadeild Umf. Svarfdæla á Dalvík og séð þar um þjálfun. Auk þess sá hún um fjölbreytt sumarnámskeið fyrir krakka á Árskógsströnd, svo eitthvað sé nefnt.
Á myndinni má sjá Þorgerði Guðmundsdóttur, formann UMSE, ásamt Helenu Frímannsdóttur.