Fara á efnissvæði
31. desember 2025

Hugvekja formanns UMFÍ

Árið sem senn er að líða hefur verið annasamt og afar lærdómsríkt. Fjölmörg tækifæri til samvinnu sköpuðust og við nýttum það til eflingar á samstarfi þar sem gleðin var höfð í fyrirrúmi. Þetta ár markar einnig stór tímamót í sögu UMFÍ þar sem öll íþróttahéruð landsins urðu aðilar að UMFÍ og þar með öll íþrótta- og ungmennafélög landsins. Við héldum áfram að þróa verkefni svæðisstöðva íþróttahéraða og farsældarráð hafa nú verið stofnuð um allt land þar sem svæðisfulltrúarnir eiga sæti.

UMFÍ vinnur markvisst að því að skapa aðstæður þar sem gleði og samvinna eflir íþrótta- og æskulýðsstarf um allt land. Þessi viðleitni hefur komið fram með skýrum hætti á þessu ári. Farsældarráðin, öflugt ungmennaráð, samvinnan sem birtist í starfi hreyfingarinnar og virk þátttaka í lýðræðisþjóðfélagi byggja brýr á milli aðila. Skýr sýn á vegferðina og trú á gildi hreyfingarinnar, traust – gleði – og samvinnu, eru lyklar að farsælli framtíð samhentrar hreyfingar.

En betra íþróttastarf verður ekki til í tómarúmi. Það verður til með samtali og forgangsröðun verkefna í samvinnu samfélagsins alls; þátttakenda, forráðamanna, sjálfboðaliða og starfsmanna innan íþróttahreyfingarinnar, stjórnvalda og sveitarstjórna um allt land.

Við sjáum víða að blikur eru á lofti, áskoranir eru fjölmargar og framundan eru verkefni sem kalla á enn meiri samvinnu. Því er sérstaklega mikilvægt að fylgja eftir vinnu við stefnumótun innan íþróttahreyfingarinnar. Tryggja þarf að sem flest hafi kost á að leggja sitt til málanna þannig að öll sjónarmið verði lögð fram til umræðu. Þannig getum við best tekist á við áskoranir samtímans og til framtíðar. Sjaldan hefur verið meiri þörf á því að nýta aðstæðurnar, ræða saman, hlusta og tryggja að hvert okkar geti tekið þátt í viðburðum og verkefnum, hvert á sínum forsendum. Það er samfélagi okkar til heilla.

Við heyrum og tölum um að vísbendingar séu um að þjóðfélagið sé að breytast, að einangrun fólks og einmanaleiki séu að aukast. Nú síðast herma fregnir að um 70% fullorðinna glími við offitu og 7,5% barna sömuleiðis. Nauðsynlegt er að bretta upp ermar og vinna enn harðar og meira saman að því að hreyfa við þjóðinni í bókstaflegri merkingu. Ávinningurinn af því er margvíslegur, fyrir stjórnvöld og íbúa landsins, hann er félagslegur, efnahagslegur og skiptir máli fyrir lýðheilsu fólks – hann skiptir máli fyrir alla og því til mikils að vinna.

Orð séra Braga heitins Friðrikssonar Garðaklerks eiga enn vel við í dag sem leiðarljós á vegferðinni sem er framundan: „Í þágu hins fagra, göfuga og góða.“

Með framangreind orð í huga skora ég því á ykkur: Hreyfum okkur meira saman og finnum gleðina í lífinu með öðrum. Það er samfélaginu til góða.

 

Með ungmennafélagskveðju og ósk um gleðilega hátíð og farsælt komandi ár.