Ice Girls Ice Guys og Glaumbæjargengið skráð til leiks

Hvað heitir liðið þitt á Unglingalandsmóti UMFÍ? Þátttakendur á mótinu eru afar hugmyndaríkir og er afar vinsælt að búa til liðsheiti og sérstaka liðsbúninga. Margir búa til skemmtileg nöfn á liðin. Nú þegar eru skráð lið eins og:
270 drollurnar - Ballon d'Or - Bleikablik - Bleikur Range Rover - FC flatbaka - Glaumbæjargengið - Ice girls - Ice guys - Lager helgi og vinir hans, Litlu hvítu kjúklingarnir - Pink Fluffy Unicorns - Sauðirnir - Skinkurnar - Smokkfiskarnir og Sykurpabbar
Við höfum líka séð í gegnum árin lið eins og Prumpandi einhyrninga, Sveppasulturnar, Ofurhetjurnar, Bónusgrísina, Bakkbræður, Rothöggið og mörg fleiri.
Liðsnöfnin eru ansi frjálsleg.
Í dag er síðasti dagurinn runninn upp til að skrá sig í greinar á Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum. Mundu að skrá þig í greinar fyrir miðnætti.
Nöfnin gefa liðinu lit
Það er auðvitað engin að skíra liðið en bæði flottir búningar og hressilega skemmtileg nöfn gefa mótinu lit og vekja mikla athygli á einstaka liðum.
Þátttakendur í liðakeppni eins og knattspyrnu, körfubolta, grashandknattleik og grasblaki geta búið til sitt eigið lið í skráningarkerfi mótsins.
Þátttakendur þurfa ekki að vera frá sama sambandsaðila eða sama félagi heldur getur hver sem er sett saman sitt eigið lið.
Þeir þátttakendur á Unglingalandsmóti UMFÍ sem ekki eru í liði eða í hópi sem ekki nær að mynda lið geta verið settir í lið með öðrum þátttakendum.
Á morgun verður raðað í lið - líka þau sem hafa skráð sig án lið. Þau verða sett í lið með jafningjum og geta þar eignast nýja vini á mótinu.
Eftir daginn í dag - sunnudaginn 27. júlí - er mögulega hægt að bæta þátttakendum við í einhverjar greinar. Það er þó háð því hversu mörg pláss eru í boði. Þess vegna verður ekki hægt að ganga að því vísu.
Ef þú ert ekki með liðsfélaga þá er hægt að skrá sig „án liðs“ og við hjá UMFÍ setur saman lið handa ykkur.
Allar upplýsingar um mótið og skráning eru á umfi.is.
Hér má sjá nokkrar myndir af skemmtilegum liðum í gegnum tíðina.


