Fara á efnissvæði
11. nóvember 2025

Íþróttafólk duglegt að sækja sér fræðslu

Æskulýðsvettvangurinn býður upp á námskeið fyrir allt fólk sem vinnur með börnum í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Rafræn barnaverndarnámskeið eru vinsæl. Nýtt efni er í vinnslu.
 
„Námskeiðin ganga vel hjá okkur og fólk duglegt að sækja þau. Þegar mál koma upp hjá félögunum þá fer fólk að leita að efni til að vinna eftir. Þau finnast hjá okkur,“ segir Kolbrún Ósk Pétursdóttir, verkefnastýra Æskulýðsvettvangsins.

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands. Hlutverk hans er að stuðla að heilbrigðu, öruggu og uppbyggilegu æskulýðsstarfi.

Á vegum vettvangsins eru haldin fjöldi námskeiða á hverju ári. Þau vinsælustu eru námskeiðin Barnavernd, sem er rafrænt netnámskeið. Það er opið öllum og kostar ekki að taka það. Markmið þess er að auka þekkingu starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingum af því. Hitt námskeiðið sem mörg taka heitir Verndum þau og eykur meðvitun fólks sem starfar með börnum ungmennum um skyldur þess og ábyrgð auk þess að öðlast þekkingu á því hvernig bregðast skuli við ef erfið mál skjóta upp kollinum. Þetta er jafnframt elsta námskeið Æskulýðsvettvangsins, sem hefur kennt það frá árinu 2010.  

Rafræn námskeið hafa notið vinsælda enda hægt að taka þau nánast hvar sem er. Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur kennir námskeiðið Verndum þau. Það hefur verið í boði utan höfuðborgarsvæðisins öðru hvoru og er stefnt á ferð norður í land með það eftir áramótin.

Kolbrún bendir á að önnur námskeið hafi líka verið vinsæl. Starfsfólk og sjálfboðaliðar í skipulögðu starfi hafi mjög gott af því að taka námskeið og fræðast meðal annars um siðareglur, samskipti og hinseginfræðslu, sem hefur verið vel sótt.

„Fólk sem fær til sín hinsegin börn vill fá aðstoð með börnin og sækir sér aðstoð. Það sama á við um kvíða. Við erum að svara kallinum og erum byrjuð á því að vinna kennsluefni um kvíða hjá börnum og ungmennum. Það verður væntanlega aðgengilegt eftir áramót,“ heldur Kolbrún áfram.

„Við hvetjum allt starfsfólk og sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni og öðru skipulögðu starfi og vinnur með börnum og ungmennum til að taka námskeiðin,“ segir Kolbrún Ósk að lokum.
 
 

Námskeið um samskipti og siðareglur

Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir netnámskeiði í samskiptum og siðareglum þriðjudaginn 25. nóvember klukkan 17:30.

Siðareglur eru mikilvægur hlekkur í því að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna sem taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi og til að tryggja öryggi þeirra, sem og starfsfólks og sjálfboðaliða í starfinu.

Aðgangur er frír og námskeiðið er opið öllum. 

Fleiri námskeið í boði

  • Samskipti og siðareglur.
  • Barnavernd.
  • Verndum þau.
  • Einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Hatursorðræða.
  • Hinseginfræðsla.
  • Inngilding og fjölmenning.
  • Skjánotkun barna og ungmenna.
     
    Ítarlegri upplýsingar um stað og stund er að sjá hér