Íþróttir eiga að vera fyrir börn
„Íþróttir eru fyrir börn, en ekki öfugt,“ segir Mark Joseph O'Sullivan, frá Norska íþróttaháskólanum (NIH). Hann ræddi á RIG-ráðstefnunni í dag um gerviatvinnumennsku sem er farin að ryðja sér æ meira til rúms í norrænum íþróttum.
Ráðstefnan einblínir á snemmtæka afreksvæðingu í íþróttum barna og ungmenna og áhrif hennar á ungt fólk og fjallað þar um nýjustu rannsóknir og mikilvægi þess að hafa jafnvægi milli keppni og vellíðanar í íþróttum barna og ungmenna. Ráðstefnan er hluti af Reykjavíkurleikunum og haldin í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ, ÍBR, Háskólann í Reykjavík og Reykjavíkurleikana.
Börn þurfa tækifæri til kanna
Mark gagnrýndi í athyglisverðu erindi sínu snemmvæðingu í barna- og unglingaíþróttum og þá þróun sem hann kallaði blekkingu. Hann benti á að íþróttastarf barna mótist æ meira af stjórnun, mælingum og stöðlun þar sem árangur er settur ofar leikgleði og þroska. Börn séu jafnvel skoðuð sem fjárfesting til framtíðar, sem skapar óhóflegan þrýsting og snemmbæra sérhæfingu.
Mark sagði þjálfara barna leggja fyrir fram ákveðin leikmynstur á unga iðkendur. Slík nálgun hamli sjálfstæðri hugsun, skynjun og ákvarðanatöku þeirra – jafnvel þegar þau eldast og geri alla keppni staðlaða. Hann gagnrýndi jafnframt algengar mýtur eins og þá um 10.000 klukkustundirnar, sem kveður á um að sú æfing skapi meistarann. Sú hugmynd sé byggð á sandi, að hans sögn.
Í stað þessa hvatti hann til heildrænnar færniþróunar þar sem börn fá aukið sjálfræði og tækifæri til að kanna og leysa verkefni á eigin forsendum í stað þess að herma eftir öðrum. Það skýrist af því að færni er ekki föst hæfni og hægt að taka hana af einum stað og færa yfir á annan. Þvert á móti eigi þjálfunin að felast í stöðugri aðlögun að umhverfi hvers og eins.
Íþróttir eigi að vera fyrir börn – ekki öfugt – og mikilvægt sé að stíga varlega niður þegar kemur að þjálfun barna, að hans sögn.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá ráðstefnunni.