Fara á efnissvæði
02. ágúst 2025

Jóhann Steinar: Galdurinn felst í því að vera með

„Við þurfum öll í sameiningu að halda áfram að fjölga leiðum inn í íþróttahreyfinguna, fyrir öll börn – óháð uppruna, bakgrunni eða færni,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hann flutti ávarp við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum í gær þar sem hann bauð mótsgesti velkomna og þakkaði sjálfboðaliðum fyrir framlag sitt.

Jóhann sagði eitthvað alveg sérstakt er við þessa stund, þegar fjölskyldur og vinir komi saman alls staðar að af landinu til að taka þátt í mótinu. Galdurinn felist í því að vera með og töfrar mótsins felist í vináttunni sem myndist á mótinu, lærdóminum og gleðinni. 

„Við vitum að íþróttir skipta máli. Þær styrkja sjálfstraust, efla félagsfærni og kenna okkur að vinna saman, setja markmið og takast á við mótlæti. Niðurstöður kannana, sem UMFÍ og ÍSÍ hafa staðið fyrir um árabil, sýna að börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi líður betur – bæði líkamlega og andlega. Það er engin tilviljun – því íþróttir eru töfrum líkar. Þess vegna skiptir máli að við sköpum umhverfi þar sem öll börn geta tekið þátt, þar sem fjölskyldan getur skemmt sér saman á heilbrigðum saman,“ sagði hann og lagði áherslu á að það gerist ekki af sjálfu sér.

 

Mörg í skrúðgöngu

Fjöldi mótsgesta og íbúa á Egilsstöðum mætti við setninguna. Á meðal gesta var Willum Þór Þórsson, formaður ÍSÍ, en hann er fyrsti forseti ÍSÍ sem sækir mótið. Þar á meðal voru sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi, Fjarðabyggð og víðar. 

Auk Jóhanns fluttu ávarp þau Jódísar Lilja Skúladóttir, fyrir hönd keppenda, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, sem bauð fólk velkomið og líka Benedikt Jónsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Íslands (UÍA). 

Kynnar á mótinu voru þau María Sigurðardóttir og Ernir Daði Arnbergz. Aðalfánaberi var glímukappinn Hákon Gunnarsson frá Reyðarfirði.

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni

Forseti ÍSÍ, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi, þingmenn, kæru þátttakendur og gestir. 
Verið hjartanlega velkomin á tuttugasta og sjötta  Unglingalandsmót UMFÍ hér á Egilsstöðum!
Eitthvað alveg sérstakt er við þessa stund, þegar fjölskyldur og vinir koma saman alls staðar að af landinu til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ - og að upplifa galdurinn sem felst í því að vera með. 

Unglingalandsmótið hefur alltaf verið meira en bara keppni. Hér ríkir andi samveru, gleði og virðingar. Þó við keppum á vellinum þá gerist það dýrmætasta utan hans: hér myndast vinátta, við lærum hvert af öðru og við sköpum minningar sem fylgja okkur alla ævi. Í þessu felast töfrar mótsins.

Ómetanlegt er að fá tækifæri til að prófa eitthvað nýtt, takast á við áskoranir og gleðjast með öðrum. Hér eru allir með á sínum forsendum.

Við vitum að íþróttir skipta máli. Þær styrkja sjálfstraust, efla félagsfærni og kenna okkur að vinna saman, setja markmið og takast á við mótlæti. Niðurstöður kannana, sem UMFÍ og ÍSÍ hafa staðið fyrir um árabil, sýna að börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi líður betur – bæði líkamlega og andlega. Það er engin tilviljun – því íþróttir eru töfrum líkar.

Þess vegna skiptir máli að við sköpum umhverfi þar sem öll börn geta tekið þátt. Við þurfum öll í sameiningu að halda áfram að fjölga leiðum inn í íþróttahreyfinguna, fyrir öll börn – óháð uppruna, bakgrunni eða færni.

Mót eins og þetta, þar sem fjölskyldan getur skemmt sér saman á heilbrigðum forsendum, gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst mikillar vinnu, elju og eldmóðs. Því vil ég nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum, starfsmönnum og öðrum sem gert hafa þetta mót að veruleika, innilega fyrir þeirra ómetanlega framlag.

Við eigum það öll sameiginlegt að vilja sjá börn og ungmenni vaxa og dafna. Með gleði, trausti og samvinnu getum við haldið áfram að byggja upp þann anda sem Ungmennafélagshreyfingin stendur fyrir – anda sem sameinar, styrkir og gleður. Þessi einstaka tilfinning er það sem við köllum Ungmennafélagsandann.

Kæru þátttakendur: Látum töfrana verða að veruleika! 

Ég lýsi hér með tuttugasta og sjötta Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum formlega sett!