Jóhann Steinar og Auður sæmd Gullmerki ÍF

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, voru sæmd gullmerki á Sambandsþingi Íþróttasambands fatlaðra sem fram fór á laugardag.
Í þinginu hélt Jóhann Steinar ávarp fyrir hönd UMFÍ þar sem hann gerði samvinnu og samstarf að umfjöllunarefni og rifjaði upp ferð á vegum UMFÍ með starfsfólki svæðisstöðva íþróttahéraðanna og fulltrúum Íþróttasambands fatlaðra til Danmerkur í fyrrahaust til að kynnast starfi íþróttafélaga og íþróttum fyrir fólk með fötlun þar í landi.
Jóhann sagði ennfremur að svæðisfulltrúarnir hafi unnið að því að efla íþróttahéruðin og þátttöku í íþróttastarfi með þremur áherslum, þar á meðal barna með fatlanir. Nú þegar hafi ýmis verkefni litið dagsins ljós – þar á meðal nýjungar sem styrkja starfið.
„Framtíðin felst í samvinnu, framtíð þar sem allir fá tækifæri til að njóta sín og láta drauma sína rætast,“ sagði hann.
Á þinginu fjallaði Valdimar Gunnarsson um verkefnið Allir með, sem er samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra, ÍSÍ og UMFÍ auk þriggja ráðuneyta.
Í lok þings var Ólafur Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íþróttasambands fatlaðra, heiðraður sérstaklega, en hann hætti störfum um áramótin.
Undir lok þings var jafnframt Þórður Árni Hjaltested endurkjörinn formaður sambandsins.
Á myndinni hér að ofan má sjá þau Jóhann, Ólaf og Auði á loknu þingi.