Koma frá Svíþjóð á Unglingalandsmót

„Við komum til Íslands á hverju ári og það er fastur liður hjá okkur árlega að fara á Unglingalandsmót,“ segir augnlæknirinn og Skagamaðurinn Gauti Jóhannesson.
Hann flutti utan til Svíþjóðar árið 2000 og hefur verið búsettur þar með hléum með fjölskyldu sinni síðan.
Gauti á reyndar ættir að rekja til Efri-Hrepps í Skorradal í Borgarfirði og hefur fjölskyldan reist sér þar hús þegar dvalið er hér á landi. Þegar þau koma hingað til lands er auðvitað keppt undir merkjum Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Þetta árið eru tvö af systkininum að keppa í frjálsum, þau Eyja Rún og Ari Freyr.
En af hverju Unglingalandsmót UMFÍ umfram eitthvað annað?
„Hér er svo geggjuð stemning og góður andi,“ svarar Gauti og er eldsnöggur að svara því hvort fjölskyldan ætli að koma á Unglingalandsmótið á Sauðárkróki á næsta ári.
„Að sjálfsögðu!“
