Fara á efnissvæði
05. janúar 2026

Landslið Dana í sýningarfimleikum væntanlegt til Íslands

Í upphafi árs færum við ykkur þær frábæru fréttir að sýningarhópurinn Verdensholdet á vegum DGI er væntanlegur til Íslands. Þetta er hópur á heimsmælikvarða sem ferðast um allan heiminn og hreyfir við honum. Markmiðið með heimsókninni er að veita innblástur, miðla þekkingu og kynnast mismunandi menningu ekki aðeins með sýningum heldur líka með vinnustofum, æfingum og fræðslu. Hópurinn hefur verið á heimsreisu frá því í fyrra og kemur hingað frá Ameríku. Þar á undan var hópurinn í Ástralíu.

Hópurinn er hér á landi á vegum UMFÍ í samvinnu við Fimleikasamband Íslands.

Verdensholdet, eins og hópurinn heitir á dönsku, er mjög eftirsóttur sýningarhópur og sækjast margir um að komast í hann. Valið er í hópinn annað hvert ár og þarf að velja í hvert sinn úr stórum hópi umsækjenda.

Hópurinn sem kemur hingað til lands samanstendur af 28 einstaklingum (14 konum og 14 körlum) sem munu dvelja hér á landi dagana 4. – 27. mars.

Meirihluta dvalarinnar mun hópurinn ferðast um landið (4. – 18. mars) og dvelja á hverjum stað í nokkrar nætur. Þar verða haldnar sýningar og vinnustofur fyrir iðkendur og þjálfara ásamt skólum sem hafa áhuga.

 

Hvernig geta félög eða deildir tekið þátt?

Meðlimir sýningarhópsins eru á ferðalagi um heiminn. Leitað er eftir því að upplifa hvert land eins og innfæddir. Þess vegna er lögð áhersla á að gista inni á heimilum fólks og fá með þeim hætti tækifæri til að kynnast mismunandi aðstæðum. Danski hópurinn leitar því eftir gistingu hjá venjulegum íslenskum fjölskyldum og uppihaldi. Við leitum til félaga og deilda sem hafa áhuga á að taka á móti fólkinu og verða hluti af þessari einstöku upplifun. Hvert félag eða deild tekur á móti hópnum í 3-4 daga.

Þetta er fólkið í sýningarhópnum

 

Ávinningur

  • Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast sýningarhópi í fimleikum á heimsmælikvarða.
  • Tækifæri til að sitja masterclass-námskeið um greinina.
  • Boðið er upp á námskeið fyrir þjálfara og kennara.
  • Frábær fjáröflun fyrir félagið eða deildina (bæði fyrir að taka hópinn að sér og aðgangseyrir á sýningar hópsins).

 

Fjáröflun fyrir aðildarfélög

Með þessu skeyti nú leitum við eftir íþrótta- og ungmennafélögum um allt land sem vilja taka þátt í verkefninu með okkur. Hvert félag sem það gerir fær styrk upp á eina milljón króna.

Óskað er eftir að áhugasöm félög og deildir hafi samband í síðasta lagi fyrir mánudaginn 12. janúar 2026. Nóg er að senda skeyti á netfangið umfi@umfi.is.

 

 

Verdensholdet í hnotskurn

Verdensholdet – eða sem útleggja má sem Heimsliðið á íslensku – er sýningarhópur í fimleikum. Hópurinn heyrir undir DGI, sem eru systursamtök UMFÍ í Danmörku. Hópurinn var stofnaður árið 1939 og hefur starfað í ýmsum myndum síðan þá.

Verdensholdet eins og hópurinn þekkist í dag var mótaður árið 1992 og átti fimleikafólk frumkvæðið að breytingunni. Fyrst var valið í liðið árið 1994 undir heitinu National Danish Gymnastics Team (NDGT). Liðið bar það nafn til ársins 2001 og lagði þá meiri áherslu á sýningar og fræðslu.

Frá árinu 1994 hefur fimleikahópurinn farið í 14 heimsreisur og stendur sú 15. nú yfir.

Enn meiri upplýsingar um Verdensholdet má finna á vefsetri Verdensholdet og á félagsmiðlum fimleikahópsins.

 

Heimasíða DGI

Verdensholdet á Facebook

Verdensholdet á Instagram

Verdensholdet á YouTube