Fara á efnissvæði
23. janúar 2026

Mælir með að Ísak læri að hlaupa

Ísak Már Aðalsteinsson er nýr framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ). Hann lærði hjá fyrrverandi framkvæmdastjóra og æfði blak með henni.

„Hann þarf að læra að hlaupa,“ segir Gunnhildur Hinriksdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ), um Ísak Má Aðalsteinsson, sem hefur tekið við starfi hennar. Gunnhildur segir þetta nauðsynlegt veganesti í starfinu og ætti að vita það því hún hefur vermt stól framkvæmdastjóra íþróttahéraðsins frá byrjun árs 2018. Gunnhildur hefur tekið við starfi verkefnastjóra æskulýðs- tómstunda- og menningarmála hjá Þingeyjarsveit.

UMFÍ þakkar henni fyrir gott samstarf og samveruna.  

Ísak viðurkennir að hann sé ekki mikill hlaupari og spili einmitt blak út af því. 

„Blak er sú boltagrein sem mér þótti ólíklegast að ég þyrfti að hlaupa í,“ segir hann. Ísak segir vistaskiptin góð, hann taki við góðu búi og stutt að leita þekkingar ef á þarf að halda. Hann þekki þau Gunnhildi og mann hennar Sigurbjörn Árna Arngrímsson ágætlega. Þau kenndu honum íþróttafræði á sínum tíma auk þess sem hann spilaði einmitt reglulega blak með þeim. 

Ísak býst jafnframt við að hitta Gunnhildi reglulega, svo sem á formannafundum HSÞ og fleiri viðburðum því hún er formaður Ungmennafélagsins Eflingar í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. 

 

Reykdælingur í húð og hár

Ísak er 33 ára, uppalinn Reykdælingur og sleit þar barnskónum. Nú er hann búsettur á Húsavík með fjölskyldu sinni, konu og tveimur börnum. Ísak er stúdent frá Framhaldsskólanum á Laugum og er með BS í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands.

Ísak viðurkennir að hann hafi ekki þekkt mikið til starfs HSÞ í æsku, í raun haldið að það væri félag sem sérhæfði sig í frjálsum íþróttum. Hann hafi reynt að fóta sig í frjálsum á sínum tíma en ekki fundið sig. Hann hafi stundað knattspyrnu á uppvaxtarárunum en síðar fundið sig í blaki. 

Ísak hefur síðastliðin átta ár einbeitt sér að hreyfiþjálfun barna á Húsavík og vinnur samhliða starfinu hjá HSÞ sem verkefnastjóri hjá Völsungi á Húsavík yfir samþættingarverkefni, sem er samstarfsverkefni Norðurþings, Íf. Völsungs og skólanna á Húsavík. Markmið þess er að auka þátttöku barna í skipulögðu íþróttastarfi ásamt því að veita öllum börnum í elstu árgöngum leikskóla og tveimur yngstu bekkjum grunnskóla tækifæri til að stunda íþróttir gjaldfrjálst innan skóladagsins. 

Hann segir margt framundan, bæði í starfi HSÞ auk samtals og samstarfs við svæðisfulltrúa íþróttahreyfingarinnar á Norðurlandi eystra. 

„Þetta starf leggst vel í mig,“ segir hann. 

 

HSÞ í hnotskurn

Sambandssvæði Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) nær yfir fimm sveitarfélög á Norðurlandi eystra, frá Grýtubakkahreppi í vestri  að Langanesbyggð í austri. Aðildarfélögin eru 20 talsins. Ellefu þeirra eru sérgreinafélög og níu félaganna eru fjölgreinafélög.

Þær greinar sem hafa jafnan verið í boði hjá aðildarfélögum HSÞ eru: Knattspyrna, hestaíþróttir, skák, golf, blak, frjálsíþróttir, skotíþróttir, fimleikar, íþróttir fatlaðra, mótorhjóla- og snjósleðaíþróttir, sund, taekwondo, skíðaíþróttir, bogfimi, glíma, almenningsíþróttir auk skipulagðs félagsstarfs s.s. leiklistar. Þá hafa félögin boðið upp á fleiri íþróttagreinar s.s. klifur, handbolta, körfubolta, borðtennis og pílukast.

HSÞ er eitt 26 sambandsaðila UMFÍ, sem skiptast í 25 íþróttahéruð og eitt ungmennafélag með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ.

Á myndinni hér að neðan má sjá þátttakendur frá HSÞ við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fór á Egilsstöðum um síðustu verslunarmannahelgi.