Fara á efnissvæði
11. október 2025

Magndís og Einar sæmd æðstu viðurkenningu UMFÍ

Þau Einar Haraldsson og Magndís Alexandersdóttir bættust í hóp heiðursfélaga UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ í gærkvöldi og voru sæmd með sérstökum heiðursfélagakrossi. Þetta er æðsta viðurkenning Ungmennafélags Íslands.

Einar var um árabil formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, og Magndís var formaður Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH). Bæði hafa þau auk þess setið í stjórn UMFÍ. 

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, las upp stutta tölu um þau Einar og Magndísi og afhenti þeim heiðursviðurkenningarnar við setningu þingsins, sem fram fer í Stykkishólmi um helgina. 

 

Meira um Einar

Einar Haraldsson hefur haft djúpstæð áhrif á íþróttastarf á Suðurnesjum í mörg ár. Það er kannski ekki á allra vitorði en Einar er aðfluttur í Keflavík, fæddur í Reykjavík og alinn upp í Garðahreppi og útskrifaður úr húsasmíði frá Iðnaskólanum í Hafnarfirði.

Einar flutti ekki til Keflavíkur fyrr en árið 1977.

En það skiptir auðvitað engu fyrir okkar sögu og íþróttamál í Keflavík því hann er fyrir löngu orðinn rótgróinn hluti af samfélaginu.

Ferill Einars í keflvísku íþróttalífi spannar rúm 40 ár.

Hann var kjörinn í varastjórn Ungmennafélags Keflavíkur árið 1985 og varð síðasti formaður félagsins níu árum síðar. Um mitt ár 1994 varð Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag til úr sex íþróttafélögum. 

Einar stóð vaktina af elju í 39 ár, þar af 26 sem formaður og 25 ár sem framkvæmdastjóri Keflavíkur.

Einar hefur auk þess látið til sín taka í stjórn UMFÍ. Hann sat í varastjórn UMFÍ um fjögurra ára skeið, frá 2003 til 2007 og í aðalstjórn næstu fjögur ár á eftir. Stjórnarseta hans taldi því 8 ár. Hann sat þar í framkvæmdastjórn ásamt fleiri nefndum og á nú sæti í fjárhags- og greiningarnefnd. Hann hefur auk þess tekið þátt í öðru starfi UMFÍ eins og í starfi Almannaheilla. 

Þar utan sat hann í stjórn Íþróttabandalags Reykjanesbæjar í áratug, bæði sem varaformaður og formaður.

Einar hefur ekki aðeins sinnt félagsmálum af mikilli ábyrgð heldur einnig verið drifkraftur í uppbyggingu, samstöðu og árangri Keflavíkur. Hann hefur verið traustur leiðtogi, hlýr félagi og orðstír hans afar góður.

 

Meira um Magndísi

Í Skinfaxa – tímariti UMFÍ árið 2023 – segir um Magndísi Alexandersdóttur að hún sé fædd inn í ungmennafélagshreyfinguna. Hún er líka félagi fram í fingurgóma og hefur tekið þátt í félagsstarfi frá tólf ára aldri. 

Þótt hún hafi kannski ekki átt langan feril sem keppnismanneskja þá hefur vegur hennar verið farsæll í félagsmálum.

Magndís tók sæti í stjórn HSH á héraðsþingi sambandsins í febrúar 1971. Tók hún þar þátt í ýmsum störfum, var formaður þegar á þurfti að halda, ásamt því að taka að sér starf framkvæmdastjóra HSH um tveggja ára skeið. Hún sat jafnframt í stjórn HSH, þar af tvö ár sem formaður. Það slysaðist hún til að taka að sér í neyðartilviki.

Magndís var fyrsta konan til að gegna þessu hlutverki í sögu UMFÍ á sínum tíma.

Magndís ferðaðist um landið, oft ein á ferð, og kom mörgu í verk. Hún stofnaði sumarbúðir á Lýsuhóli, gaf út fréttabréf HSH og stóð í ströngu við að kynna starfsemi sambandsins. Hún stýrði Landsmóti UMFÍ á Akureyri 1981 af miklum krafti.

Í stjórn UMFÍ var Magndís oft eina konan. Hún starfaði með mörgum þekktum einstaklingum og átti þar meðal sinna bestu vina. Hún hlaut Gullmerki UMFÍ árið 1992 fyrir ómetanlegt framlag sitt.

Viðtalið við Magndísi í Skinfaxa endurspeglar óeigingjarnt starf sjálfboðaliðans sem Magndís er góð fyrirmynd.

Spurð að því hvernig það hafi verið að ferðast og funda alltaf hreint ein með þessum körlum sagði hún: „Þetta voru allt fínir karlar og mér fannst aldrei leiðinlegt. Ég tók ekkert eftir því þótt ég væri ein því þetta voru allt vinir mínir.“

Fleiri mættu vera jafn léttlundaðir og jákvæðir og Magndís.

Magndís var sæmd gullmerki UMFÍ árið 1992. Síðan eru liðin 32 ár og fyrir löngu er kominn tími á að hún bætist í góðan hóp fólks, sumra sem voru með henni í stjórn á löngum ferli.