Fara á efnissvæði
16. maí 2025

Mikilvægt að skerpa á hlutverki íþrótta

Við endurskoðun íþróttalaga þarf að skerpa á hlutverki íþrótta, félaganna og finna leiðir til að skilja á milli rekstrartenginga meistaraflokka og barna- og unglingastarfs svo að þungur rekstur meistaraflokka hafi ekki fjárhagsleg áhrif á annað starf íþróttafélaga og vinna að því að verja Íslenskar getraunir fyrir ólöglegri samkeppni. Þetta segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.

Hann flutti ávarp við setningu Íþróttaþings ÍSÍ í dag. Þar sagði hann íþróttahreyfinguna þurfa að sækja harðar fram en vinna með stjórnvöldum að því að styðja enn betur við byggðastefnu sína með mun hærri stuðningi við ferðasjóði íþróttafólks.

Jóhann sagði íþróttahreyfinguna hafa stigið stór framfaraskref á starfstíma Lárusar Blöndal, fráfarandi forseta ÍSÍ. Framfarirnar endurspeglist í meiri samvinnu innan íþróttahreyfingarinnar en áður hafi sést og eftirtektarverðum samningum við stjórnvöld.

Ég er samt nokkuð viss um það að fleiri en ég hér inni telja að ríkisvaldið geti og verði að gera enn betur í stuðningi við íþróttahreyfinguna,“ sagði hann.

Undir lok ávarpsins bað Jóhann Steinar Lárus Blöndal um að stíga fram og var hann heiðraður með Gullmerki UMFÍ.

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni

Forseti Íslands, mennta- og barnamálaráðherra, forseti ÍSÍ, borgarstjóri, þingforseti, framkvæmdastjórn, þingfulltrúar og aðrir góðir gestir. 

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þing ÍSÍ hér í dag. Frá því að við hittumst á þingi ykkar í Hafnarfirði fyrir tveimur árum hefur íþróttahreyfingin náð ótrúlegum árangri á mörgum sviðum. Við getum öll verið stolt af íþróttahreyfingunni í dag. Og ég þykist vita að við getum verið enn stoltari þegar þau verkefni verða að veruleika sem eru handan við hornið. 

Við erum öll hér að leiða hreyfinguna inn í áhugaverða framtíð.

En breytingar, samstarf og samvinna ganga auðvitað ekki alltaf átakalaust fyrir sig. Algengt er að í slíkri vinnu séu farin tvö skref áfram og eitt afturábak. Það er raunin í okkar vinnu eins og hjá öðrum. En með hverju skrefi fram á við batnar umgjörð íþróttastarfs á Íslandi. 

Hluti af þessari vegferð birtist í auknu samstarfi ÍSÍ og UMFÍ. Ég fullyrði að samvinna okkar á milli hefur aldrei verið meiri en á síðustu tveimur árum. 

Vissulega heyrum við gagnrýnisraddir á þessa vegferð. Og það er vel, enda á íþróttahreyfingin að búa til þá umgjörð að fólk geti tjáð hug sinn. Óneitanlega hafa mistök verið gerð og auðvitað er mikilvægt að viðurkenna þau. Það er hluti af breytingunum, því það er erfitt að feta nýja slóða án þess að misstíga sig. En við erum líka að sjá ýmislegt gerast sem við höfum lengi talað um en aldrei gert – eða komist í. 

Þar má nefna svæðisstöðvar íþróttahéraðanna; verkefni sem var ýtt úr vör í fyrra. Við erum þegar farin að sjá merki um breytingar. Á starfssvæði Héraðssambandsins Hrafna-Flóka hefur sem dæmi framboð íþróttastarfs aukist og iðkendum fjölgað, Íþróttabandalag Vestmannaeyja hefur gengið í raðir UMFÍ og Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar vinnur að því að verða fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Til viðbótar hafa verið gerðir þjónustusamningar á milli íþróttafélaga og sveitarfélaga sem ekki hafa verið til áður. Margar nýjungar hafa orðið til með samstarfinu og má þar nefna nám um störf sjálfboðaliða. 

Annað verkefni er Allir með, samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ, Íþróttasambands fatlaðra og þriggja ráðuneyta. Við höfum ekki áður séð ráðuneytin vinna eins vel saman með íþróttahreyfingunni.

Margt nýtt hefur komið út úr því, þar á meðal er hjólastólakörfubolti sem er einstök viðbót við íþróttaflóruna. Við munum sjá miklar breytingar á íþróttaþátttöku sem við getum þakkað verkefninu Allir með. 

Allar þessar áherslur og breytingar undanfarin ár eru af hálfu UMFÍ unnin í samræmi við gildi ungmennafélagshreyfingarinnar: gleði, traust og samvinnu. 

Í okkar huga hefur ungmennafélagsandinn aldrei verið mikilvægari en einmitt í þeim áskorunum sem samfélagið okkar stendur frammi fyrir í dag.  Við sem störfum í íþróttahreyfingunni vitum að í tilfellum líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu er þátttaka í skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi frábær leið til að láta sér líða betur - og er á margan hátt mikilvægur stuðningur við aðrar leiðir heilbrigðiskerfisins við slíkum heilsuáskorunum. 
Þess vegna verðum við að halda áfram. 

Við vitum það líka öll að íþróttir eru ekki bara leikur og keppni. Íþróttir endurspegla samfélagið, þann veruleika sem við viljum búa í. 

Þetta viðhorf sést skýrast í því að fjölskyldufólk horfir gjarnan til framboðs á íþróttastarfi í sveitarfélögum þegar búferlaflutningar eru framundan.

Íþróttastarfið skiptir verulegu máli og þá skiptir ekki síður máli hverjir veljast til forystu á þeim vettvangi. 

Það er ekki hversdagslegur viðburður að kjósa nýjan forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og afar ánægjulegt að sjá hversu margir einstaklingar sýna því mikilvæga embætti áhuga.

Íþróttahreyfingin hefur stigið stór framfaraskref á starfstíma Lárusar Blöndal, fráfarandi forseta ÍSÍ. 

Framfarirnar endurspeglast í meiri samvinnu innan íþróttahreyfingarinnar en við höfum áður séð og eftirtektarverðum samningum við stjórnvöld. 

Ég er samt nokkuð viss um það að fleiri en ég hér inni telja að ríkisvaldið geti og verði að gera enn betur í stuðningi við íþróttahreyfinguna. 

Vegir okkar Lárusar hafa lengi legið saman. Á þeim tíma hef ég skynjað að íþróttaandinn og persónuleikinn tvinnist vel saman í honum. Hann er nefnilega alltaf til í að leggja allt sitt af mörkum, taka ábyrgð og taka af skarið, þegar á þarf að halda. Það er nákvæmlega sama hugarfar og afreksíþróttafólkið okkar þarf að tileinka sér. Það sem mér þykir þó vænst um er að á þessum tíma hef ég eignast góðan og traustan vin, sem gott er að starfa með og leita til þegar á þarf að halda og takast á við um útfærslur og úrlausn mála. Það er ómetanlegt og þakkarvert. 

Á þessari stundu vil ég einnig nota tækifærið og þakka heils hugar eiginkonu Lárusar, Soffíu Ófeigsdóttur, og dætrum þeirra umburðarlyndið, þolinmæðina og skilninginn fyrir þann ómetanlega tíma sem hann hefur þurft að ganga á gagnvart fjölskyldunni. Við öll sem störfum í íþróttahreyfingunni vitum hversu nærri við göngum þeim sem næst okkur standa þegar við sinnum sjálfboðastarfi og uppfyllum þessa miklu félagsþörf okkar. 

Ágætu fundarmenn!

Framtíðin bíður okkar í íþróttahreyfingunni. Við þurfum að standa saman, haga okkur eins og á vellinum, eins og lið sem vinnur með styrkleika og leikskipulag. Við höfum margoft sýnt að samvinna okkar getur skilað stórkostlegum árangri. 

Það er samfélaginu til heilla.

Fyrir liggur vinna við endurskoðun íþróttalaga. Þar þarf að skerpa á hlutverki íþrótta, félaganna og þeirra sem að starfinu koma. Finna þarf leiðir til að skilja enn frekar á milli rekstrartenginga meistaraflokka og barna- og unglingastarfs, þannig að þungur rekstur meistaraflokka hafi ekki fjárhagsleg áhrif á annað starf íþróttafélaga. Áfram þarf að vinna að því að verja Íslenskar getraunir fyrir ólöglegri samkeppni og sækja þarf harðar fram og tryggja endurgreiðslu virðisaukaskatts og tryggingagjalds innan íþróttahreyfingarinnar. Þá verðum við líka að vinna með stjórnvöldum að því að styðja enn betur við byggðastefnu sína með mun hærri stuðningi við ferðasjóði íþróttafólks en verið hefur. 

Verkefnin eru mýmörg og höfum í huga að rétt eins og í íþróttunum þá verðum við að leggja upp færin og nýta þau. En til þess að svo verði þurfum við að standa saman, vinna saman og tala einni röddu. 

Að síðustu:

Ég flyt ykkur kveðju stjórnar og starfsfólks UMFÍ og óska ÍSÍ, starfsfólki, stjórn og sjálfboðaliðum velfarnaðar. Vegni ykkur sem allra best á þinginu og megi íþróttahreyfingin verða sterkari með þá niðurstöðu sem hér fæst. Ég óska nýjum forseta og stjórn ÍSÍ alls hins besta og lýsi yfir vilja UMFÍ til frekara samstarfs, samfélaginu til góða. 

Áður en ég lýk máli mínu vil ég biðja Lárus um að koma hingað upp og taka við gullmerki UMFÍ sem er þakklætisvottur fyrir frábært og óeigingjarnt starf til langs tíma fyrir íþróttahreyfinguna. 
Kæru vinir, njótum stundarinnar og byggjum á gleðinni í starfinu.