Fara á efnissvæði
13. janúar 2026

Munum eftir árlegri endurnýjun á Almannaheillaskrá

Ýmiss konar kostir fylgja því fyrir félög að vera á Almannaheillaskrá. Skráningin veitir víðtækar undanþágur frá skattlagningu, undanþágu frá tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og erfðafjárskatti auk endurgreiðslu á virðisaukaskatti á vinnu iðnaðarmanna við húsnæði sem alfarið er í eigu viðkomandi félags og svo má lengi telja. Þá geta íþrótta- og ungmennafélög á landinu sem eru á skránni nýtt frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru í almannaheillaskrá Skattsins.

Styrktaraðilar félaganna geta nýtt framlög sín til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni. Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10-350 þúsund krónur á hverju ári og framlög koma til lækkunar á útsvars- og tekjustofni. Frádráttur fyrirtækja getur numið allt að 1,5% af rekstrartekjum auk þess sem fyrirtæki geta dregið frá 1,5% vegna aðgerða eða framlög til aðgerða.

Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá hjá Skattinum.

 

Er félagið á Almannaheillaskrá?

Endurnýja skal skráningu á Almannaheillaskrá ár hvert á þjónustusvæði Skattsins eigi síðar en 15. febrúar. Þar eru afar skýrar leiðbeiningar um það sem gera þarf.

Þjónustusvæði Skattsins

 

Mikilvægt að vita

Það að félag sé skráð í almannaheillafélagaskrá þýðir ekki að það sé sjálfkrafa skráð í almannaheillaskrá Skattsins.

Skoða lista yfir félög á almannaheillaskrá Skattsins

 

Skrá félag á Almannaheillaskrá

Eins og sést af áðurgreindu fylgir því töluvert hagræði fyrir rekstur íþrótta- og ungmennafélaga og stuðningsaðila viðkomandi félaga að viðhalda skráningu á Almannaheillaskrá. Ef félagið er ekki þegar skráð þá ætti að íhuga það.

Félögin þurfa einungis að huga að skráningu í Almannaheillaskrá þar sem þau teljast nú þegar almannaheillafélög. Hvorki þarf að breyta lögum félaga né greiða nýskráningargjald né breytingagjald við skráningu í Almannaheillaskrá.

Skráning íþrótta- og ungmennafélaga í Almannaheillaskrá fer fram í gegnum þjónustusvæði Skattsins og er skráningin tiltölulega einföld.

Almennu skilyrðin fyrir skráningu félags á Almannaheillaskrá Skattsins, sem þarf að uppfylla:

  • Samþykktir félagsins þurfa að liggja fyrir hjá fyrirtækjaskrá.
  • Raunverulegir eigendur félagsins þurfa að hafa verið skráðir.
  • Engin vanskil vegna opinberra gjalda, skatta eða sekta

Íþróttafélög sem óska eftir skráningu í almannaheillaskrá Skattsins þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Skráningu raunverulegs eiganda þarf að vera lokið. 
  • Félag má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir. 
  • Standa þarf skil á ársreikningum fyrir 31. maí ár hvert. 
  • Standa þarf skil á skattframtölum og skýrslum. 
  • Liggja þarf fyrir með skýrum hætti í samþykktum hver sé tilgangur félagsins, hvernig framlögum verði ráðstafað til almannaheilla og meðferð eigna við slit.
  • Bókhald og ársuppgjör þarf að bera með sér fjárhæð gjafa og framlaga ásamt því hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað til almannaheilla. 
  • Ráðstafa þarf framlögum innan skamms tíma til þeirra málefna sem samþykktir segja til um svo ekki komi til mikillar sjóðasöfnunar á milli ára.
  • Nýjustu samþykktir eða lög félaga þurfa að liggja fyrir hjá fyrirtækjaskrá Skattsins til að unnt sé að taka afstöðu til umsóknar.

Þegar kemur að útfyllingu skattframtala félaga er mikilvægt að gera grein fyrir mótteknum gjöfum og framlögum ásamt ráðstöfun þeirra í sérstökum kafla á skattframtali undir liðnum: „Upplýsingagjöf frá almannaheillafélögum“. 

 

Leiðbeiningar um útfyllingu einstakra reita

Reitur 1055 Móttekin framlög vegna almannaheillastarfsemi frá einstaklingum

Heildarfjárhæð framlaga án gagngjalds sem mótteknar voru frá einstaklingum á rekstrarárinu 2025. Hafi lögaðili verið skráður í fyrsta sinn á almannaheillaskrá á rekstrarárinu 2025, þá ber hér aðeins að gera grein fyrir heildarfjárhæð framlaga og styrkja einstaklinga talið frá og með umsóknardegi til loka árs.

 

Reitur 1056 Móttekin framlög vegna almannaheillastarfsemi frá lögaðilum

Heildarfjárhæð framlaga án gagngjalds sem mótteknar voru frá öðrum lögaðilum á rekstrarárinu 2025. Hafi lögaðili verið skráður í fyrsta sinn á almannaheillaskrá rekstrarárið 2025, þá ber hér aðeins að gera grein fyrir heildarfjárhæð framlaga og styrkja frá öðrum lögaðilum talið frá og með umsóknardegi til loka árs.

Samtala fjárhæða í reitum 1055 og 1056 ætti almennt að vera jöfn heildarfjárhæð framlaga samkvæmt árlegum gagnaskilum félagsins á almannaheillamiðum (fyrir 20. janúar ár hvert), sem m.a. er grundvöllur áritaðs frádráttar á framtal gefenda.

 

Reitur 3750 Ráðstöfun styrkja/framlaga til almannaheilla

Hér skal gera grein fyrir ráðstöfun styrkja/framlaga beint til þeirra almannaheillamálefna sem starfsemi lögaðilans snýr að. Hér er um að ræða ráðstöfun framlaga til kaupa á vörum og tækjum og launakostnað vegna beinnar vinnu við almannaheillamál o.þ.h. Einnig beinir peningalegir styrkir, s.s. vegna náms, kaupa á búnaði vegna lækninga o.þ.h.

 

Reitur 3760 Önnur notkun styrkja/framlaga til almannaheilla (vörukaup, tækjakaup, rekstur á starfsemi).

Ráðstöfun styrkja/framlaga inn á við hjá lögaðilanum vegna almannaheillastarfseminnar. Hér er um að ræða kostnað vegna skrifstofuhalds, þ.m.t. launakostnað, kaupa á rekstrartækjum, reksturs húsnæðis og annars innri rekstrarkostnaðar.

 

Reitur 5210 Allir veltufjármunir í árslok (sjóður, bankainnstæður, verðbréf o.þ.h.)

Heildarfjárhæð veltufjármuna í árslok, s.s. sjóður, bankainnistæður, verðbréf, inneignir hjá greiðslukortafyrirtækjum o.þ.h.

 

Reitur 5220 Allar aðrar eignir í árslok

Heildarvirði annarra bókfærðra eigna í árslok, s.s. virði fasteigna, bifreiða, framleiðslutækja, innréttinga, tölvubúnaðar o.þ.h.

 

Gagnaskil almannaheillafélaga að ári loknu

Að loknu rekstrarári þarf að senda inn upplýsingar um móttekna styrki, auk annarra gagna og upplýsinga vegna starfseminnar. Sé þetta ekki gert þá getur skattafrádráttur fallið niður eða viðkomandi félag fallið af almannaheillaskrá.

Í þessu samhengi eru þrenn skil sem þarf að huga sérstaklega að:

  1. Skila þarf upplýsingum um fjárhæðir móttekinna styrkja og framlaga eigi síðar en 20. janúar.
  2. Skrá þarf endurnýjun á umsókn um skráningu á almannaheillaskrá eigi síðar en 15. febrúar.
  3. Skila þarf ársreikningi og skattframtali eigi síðar en 31. maí.

Ítarlegri upplýsingar má finna á upplýsingasvæði Skattsins:

Almannaheillafélög