Nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði heimsóttu UMFÍ
Tæplega 40 nemendur á fyrsta ári í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands, ásamt kennara sínum, heimsóttu íþróttamiðstöð UMFÍ í gær. Markmið heimsóknarinnar var að kynna nemendum fjölbreytta starfsemi UMFÍ.
Í kynningunni var farið yfir þau mörgu og fjölbreyttu verkefni sem UMFÍ vinnur að. Þar á meðal Unglingalandsmótið, Landsmót UMFÍ 50+, Drulluhlaupið, skóla- og sumarbúðir UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði, ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðheilsa og starfsemi Svæðisstöðva íþróttahéraðanna. Þá var einnig fjallað um þá þjónustu sem UMFÍ veitir sambandsaðilum sínum og aðildarfélögum víðs vegar um landið.
Þær Aldís og Ragnheiður, verkefnastjórar hjá UMFÍ, tóku á móti hópnum. Góðar umræður sköpuðust og svöruðu þær Aldís og Ragnheiður spurningum nemanda. Heimsóknin heppnaðist vel og sýndu nemendur mikinn áhuga á starfi UMFÍ.
Í námi í tómstunda- og félagsmálafræði fá nemendur sýn á þá starfsemi sem fram fer í frítíma fólks og um gildi, þýðingu og hlutverk tómstunda- og félagsmálastarfs. Í náminu þróa nemendur með sér hæfni til að sinna verkefnum á sviði tómstunda- og félagsmála ásamt menningar- og uppeldishlutverki tómstundastarfs í nútímasamfélagi.