Nú geturðu skráð þig og liðið á Landsmót UMFÍ 50+

Nú hefur verið opnað fyrir skráningu á Landsmót UMFÍ 50+. Mótið verður haldið á Siglufirði og Ólafsfirði dagana 27. – 29. júní, sem er síðasta helgi mánaðarins. UMFÍ heldur mótið með Ungmenna- og íþróttasambandi Fjallabyggðar og sveitarfélaginu Fjallabyggð og er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið þar.
Í boði eru 14 íþróttagreinar fyrir alla þátttakendur sem verða 50 ára á þessu ári og öll eldri. Opið verður líka í fjölda greina fyrir alla aldurshópa.
Greinar fyrir 50 ára og eldri
Badminton – boccía – bridds – frjálsar íþróttir – golf – pílukast – pokavarp – pútt – pönnukökubakstur – ringo – skotfimi – stígvélakast – sund.
Greinar fyrir alla aldurshópa
Blak – bogfimi – frisbígolf - götuhlaup – pokavarp – petanque –– minigolf – ringó – hlaupaskotfimi –led Badminton – sundleikfimi.
Annað í boði
Á mótinu verður boðið upp á ýmislegt fleira en keppni í íþróttum. Á laugardaginn 28. júní hafa þátttakendur mótsins kost á að láta kanna heilsu sína í íþróttahúsinu á Ólafsfirði.
Síðar um kvöldið verður svo haldið matar- og skemmtikvöld sem hefur notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina. Matar- og skemmtikvöldið verður haldið í menningarhúsinu Tjarnarborg á Ólafsfirði.
Hvað kostar?
Þátttökugjald er 5.500 krónur og er hægt að skrá sig í eins margar greinar greinar og viðkomandi langar til að taka þátt í. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag né stunda íþróttir. Öll geta tekið þátt á mótinu á sínum eigin forsendum.
Athugið að kaupa þarf sérstakan miða á matar- og skemmtikvöldið. Verðmiði á það birtist í skráningarkerfinu á næstu dögum.
Hvernig skrái ég mig?
Það er nokkuð einfalt að skrá sig á Landsmót UMFÍ 50+. Það er gert í gegnum umfi.is. Á skráningarsíðunni skráir þú þátttöku á Landsmóti UMFÍ 50+ eftir því hvaða íþróttahéraði þú tilheyrir á landinu. Þegar búið er að ganga frá skráningu á þátttökugjaldi verður tölvupóstur sendur á netfang þitt svo til samstundis. Í skeytinu er kvittun fyrir greiðslu á mótið og hlekkur til að ganga frá skráningu í greinar mótsins. Nóg er að smella á hlekkinn og þá ferðu á greinasíðuna.
Við skráningu í greinar er hægt að búa til lið, þar geturðu bætt þér í lið og ýmislegt fleira sem þarf að klára áður en mótsdagur rennur upp.


