Nýjungar í íþróttahreyfingunni með Abler
ÍSÍ og UMFÍ hafa samið við tæknifyrirtækið Abler um þrjú mikilvæg verkefni sem gagnast íþróttahreyfingunni, stjórnendum og iðkendum um allt land. Samningurinn er liður í samstarfi íþróttahreyfingarinnar við Abler, sem síðastliðin fjögur ár hefur þróað og þjónustað skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ sem heldur utan um árleg skil sambandsaðila og íþróttafélaga á starfsskýrslum til samtakanna.
Verkefnin sem samið um nú eru eftirfarandi:
Framboð íþrótta eftir landssvæðum
Abler mun setja upp viðmót sem sýnir með myndrænum hætti framboð á íþróttagreinum innan ÍSÍ og UMFÍ um allt land.
Þetta gerir fólki kleift að sjá hvaða íþróttastarf er í boði í öllum sveitarfélögum landsins fyrir öll kyn, allan aldur og fleira.
Sakavottorð og lögbundin námskeið
Abler mun útbúa viðmót sem gerir stjórnendum íþróttafélaga kleift að halda utan um það hvort búið sé að sækja um sakavottorð fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni og hvort viðkomandi hafi tekið lögbundin námskeið sem öll sem starfa með börnum í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi eiga að taka.
Aðildarfélögum ÍSÍ og UMFÍ ber að óska eftir sakavottorðum allra einstaklinga sem starfa með börnum og ungmennum. Viðmótið gerir stjórnendum kleift að sjá hvort búið er að sækja gögn um viðkomandi úr sakaskrá. Stjórnendur íþróttafélaga geta því með einfaldari hætti en áður fylgst með stöðunni hjá sínu félagi.
Mælaborð íþróttahreyfingarinnar
Abler mun auk þess þróa mælaborð íþróttahreyfingarinnar í samráði við ÍSÍ og UMFÍ. Það mun innihalda upplýsingar um stöðu og þróun í starfinu, upplýsingar um iðkendur, aldur, kyn og ýmislegt fleira sem gerir notendum kleift að fylgjast með breytingum sem skipta máli fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi.