Öll félög í sex íþróttahéruðum til fyrirmyndar

Öll aðildarfélög 6 íþróttahéraða af 25 hafa skilað starfsskýrslum í kerfi ÍSÍ og UMFÍ. Athygli vekur að þetta eru aðildarfélög á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum og eru það um 350 félög. Enn á 91 félag eftir að skila skýrslum.
Félögin sem öll hafa skilað eru undir sambandsaðilum Héraðssambands Skarphéðins (HSK),
Íþróttabandalags Akraness (ÍA), Héraðssambands Hnappadals og Snæfellssýslu (HSH), Ungmennasambands Austur-Húnvetninga (USAH), Héraðssambands Strandamanna (HSS) og Héraðssambands Bolungarvíkur (HSB).
Opnað var fyrir skil á starfsskýrslum í febrúar síðastliðnum.
Þau félög sem enn eiga eftir að skila starfsskýrslu þurfa að bregðast skjótt við með því að sækja um stuttan frest með því að senda póst á elias@isi.is og íþróttahérað með upplýsingum um ástæðu fyrir frestinum.
Hafa í huga
Starfsskýrsluskil þurfa að innihalda upplýsingar um félagsmenn og iðkendur á síðasta starfsskýrslutímabili, þ.e. fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2024, ásamt innslegnum lykilupplýsingum úr ársreikningum fyrir síðasta starfsár (2024) og upplýsingum um núverandi stjórn og starfsfólk.
Einnig þarf að skila ársreikningi undirrituðum af stjórn og skoðunarmönnum á pdf-formi og núgildandi lögum á pdf- formi inn í kerfið.
Samkvæmt 8. grein laga ÍSÍ og 7. grein laga UMFÍ þurfa allir sambandsaðilar og félög innan þeirra vébanda að skila inn starfsskýrslum fyrir 15. apríl ár hvert.
Nánari upplýsingar gefur Elías Atlason, starfsmaður skilakerfis ÍSÍ og UMFÍ á netfangið elias@isi.is.