Fara á efnissvæði
02. ágúst 2025

Öll keppi á eigin forsendum

„Keppni á Unglingalandsmóti er fyrir alla og öll eiga að geta keppt á sínum forsendum.  Á Unglingalandsmóti er pláss fyrir okkur öll,“ sagði Jódís Lilja Skúladóttir frá Vopnafirði og keppandi í upplestri á mótinu á Egilsstöðum um helgina. Hún flutti ávarp fyrir hönd keppenda við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi. 

Jódís minnti þátttakendur á mótinu á að hafa heiðarleika að leiðarljósi í keppnisgreinum og koma fram við andstæðinga á vellinum af virðingu. 

„Við skulum efla vináttu og vinabönd og fara héðan að loknu móti, bara með góðar minningar,“ sagði hún að lokum. 

 

Heilmikið fjölskyldufjör

Fjöldi mótsgesta og íbúa á Egilsstöðum mætti við setningu mótsins. Á meðal gesta var Willum Þór Þórsson, formaður ÍSÍ, en hann er fyrsti forseti ÍSÍ sem sækir mótið. Þar á meðal voru sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi, Fjarðabyggð og víðar. 

Auk Jódísar fluttu ávarp þau Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, bauð fólk velkomið og Benedikt Jónsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Íslands, gerði það sömuleiðis. 

Kynnar á mótinu voru þau María Sigurðardóttir og Ernir Daði Arnbergz. Aðalfánaberi var glímukappinn Hákon Gunnarsson frá Reyðarfirði.

Eftir setningu mótsins var skellt í heljarinnar fjölskyldufjör fyrir þátttakendur og mótsgesti. Heilmikið líf og fjör var í Tjarnargarði, við Egilsstaðaskóla og í íþróttahúsinu. 

Gríðarlegur fjöldi er á Egilsstöðum um helgina, keppendur eru um 1.100 talsins og mörg hundruð hjólhýsi, tjöld og vagnar á þeim tveimur tjaldsvæðum sem sett voru undir mótið. Allt hefur gengið vel og ekkert komið upp á og hefur mótsgestum verið hampað fyrir góða umgengni, bæði á keppnisvöllum og á tjaldsvæðum.

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá mótssetningunni.