Patrekur ráðinn á svæðisstöð höfuðborgarsvæðis

„Ég er búinn að lifa og hrærast í þessum íþróttaheimi frá því ég var krakki og líst rosalega vel á þessa vinnu svæðisfulltrúanna. Ég hlakka þess vegna ótrúlega til að koma,“ segir Patrekur Jóhannesson. Hann hefur verið ráðinn í stöðu svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu og mun þar starfa með Hansínu Þóru Gunnarsdóttur.
Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna er samstarfsverkefni Íþrótta- og Olympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).
Patrekur er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er nú íþrótta- og rekstrarstjóri Stjörnunnar í Garðabæ en hefur störf sem svæðisfulltrúi íþróttahreyfingarinnar 1. ágúst næstkomandi.
Patrekur er landsþekktur fyrir sinn glæsilega feril bæði sem handknattleiksmaður og þjálfari. Hann lék 243 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur þjálfað unglingalandsliðið Íslands og A-landslið Austurríkis með góðum árangri, auk þess að þjálfa handboltalið Selfoss og Skjern í Danmörku.
Patrekur hefur áratugareynslu úr íþróttahreyfingunni og er ötull talsmaður íþrótta í samfélaginu. Það er því mikið fagnaðarefni að fá Patrek til liðs við svæðisstöðvar íþróttahreyfingarinnar í nýju hlutverki, þar sem hann mun styðja við starf héraðssambanda og íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Þess má geta að Jóhannes Sæmundsson heitinn, faðir Patreks, var fyrsti fræðslufulltrúi ÍSÍ. Jóhannes gegndi mikilvægu hlutverki í uppbyggingu fræðslu innan íþróttahreyfingarinnar á sínum tíma, fullur framsýni og eldmóðs.
Við bjóðum Patrek hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum til að vinna með honum að frekari eflingu íþróttastarfs um land allt.
Ítarlegra um svæðisstöðvarnar
Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru sextán talsins um allt land og í öllum landshlutum. Hver svæðisstöð styður við íþróttahéruð á sínu svæði og hjálpar þeim að innleiða stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum.
Starfsemi svæðisstöðvanna hófst fyrir um ári.
Ein af áherslum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi, sérstaklega börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.