Fara á efnissvæði
23. júlí 2025

Prikhestar í fyrsta sinn á Unglingalandsmóti

„Undirtektirnar eru alltaf góðar. Börn finna sig á prikhestunum og foreldrarnir gleðjast yfir ánægju barnanna,“ segir Guðný María Waage, ein þeirra sem mun kynna prikhesta fyrir mótsgestum á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.

Kynning á prikhestunum verður laugardaginn 2. ágúst á milli klukkan 13:30 - 14:30 við Íþróttahúsið á Egilsstöðum. 

Þetta er fyrsta skiptið sem prikhestar verða á mótinu. Þetta er líka splunkuný grein, sem stundum hefur verið kölluð hobbíhestar. Hún er upprunnin í Finnlandi og svipar til frjálsra íþrótta enda er þar hoppað yfir hindranir og ýmislegt fleira. Prikhestar hafa vakið mikla athygli á hinum Norðurlöndunum og hafa nýverið numið land hér – eða nánast á þessu ári.

Guðný María segir marga kosti við prikhesta.

„Æfingar á prikhestum fela í sér marga þætti, eins og sköpunargleði, samhæfingu hreyfinga, brennslu og keppnisskap því það er ekki auðvelt að hoppa á svona hestum. Margir foreldrar halda að börnin þeirra séu þau einu sem hafi áhuga á hestunum en það er ekki raunin. Hópurinn er að stækka svo ört,“ segir hún og bætir við að prikhestar séu afar vinsælir hjá börnum sem alla jafna standa utan við skipulagt íþróttastarf. Dóttir Guðnýjar, sem er níu ára, stundaði engar greinar áður en hún prófaði prikhesta. Á þessu ári hefur hún eignast sex prikhesta og fór í fyrsta sinn á reiðnámskeið. Þar fór hún á námskeið fyrir börn sem eru lengra komin.

„Það var af því að hún hafði prófað prikhestana,“ segir Guðný og leggur áherslu á að prikhestar séu afar skemmtilegir fyrir börn og ungmenni og fjölskyldur sem vilja prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Á Unglingalandsmóti UMFÍ fá þátttakendur kost á að prófa hestana, fara yfir hindranir og þrautir og skemmta sér saman. Guðný og hópurinn hafa sjö til átta hesta sem mótsgestir geta prófað.

Fyrsta prikhestamótið var haldið á Húsavík í mars á þessu ári. Þáttastjórnendur frá Landanum á RÚV mættu á svæðið og fylgdust með.

Hér fyrir neðan má sjá innslag úr Landanum.

 

20 greinar á Unglingalandsmóti

Á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum verða rúmlega 20 íþróttagreinar, tónleikar og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Þetta eru greinarnar: 

Borðtennis - fimleikar - frisbígolf - frjálsar íþróttir - glíma - golf - grasblak - grashandbolti - hestaíþróttir - hjólreiðar - knattspyrna - krakkahreysti - kökuskreytingar - körfubolti - motocross - pílukast - rafíþróttir - skák - stafsetning - sund - upplestur.

Hér er hægt að skoða allt um keppnisgreinarnar og skrá sig mörg í nokkrar greinar. 

Skoða greinar

Öll kvöldin verður boðið upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir alla fjölskylduna og tónleika í bragga við tjaldsvæðið. 

Mótið hefst á fimmtudeginum 31. júlí og það kvöld koma fram DJ Hilmir Dagur Ólafsson og DJ Sigríður Svandís Hafþórsdóttir.

Við setningu mótsins daginn eftir koma þær Ína Berglind Guðmundsdóttir og Jóna Þyrí Snæbjörnsdóttir fram.

Laugardaginn 2. ágúst stíga á stokk DJ Ragga Hólm, Stebbi Jak og Hafþór ásamt Júlí Heiðari og Dísu.

Á lokakvöldi mótsins á sunnudeginum koma svo fram Magni Ásgeirsson, DJ Ernir Daði og eldhressu bræðurnir í VÆB.

 

Endilega skoðaðu allt það sem er fleira í boði og dagskránna. Þú getur séð þetta allt á umfi.is.

Skoða dagskrá og skrá á mótið