Sigurður ráðinn framkvæmdastjóri USVS
„Ég þekki fólkið og starfssvæðið mjög vel og veit að þetta verður skemmtilegt,“ segir Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, sem hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu (USVS). Um er að ræða 50% starf.
Á myndinni má sjá þegar þeir Sigurður, sem er klæddur í treyju USVS, og Jóhann Bragi Elínarson, formaður USVS, skrifuðu undir ráðningarsamning á dögunum.
Sigurður er rétt tæplega 26 ára og yngsti framkvæmdastjóri íþróttahéraðs nú um stundir. Hann er Sunnlendingur í húð og hár, uppalinn í Pétursey í Mýrdal, sem er vestasta starfssvæði USVS. Til gamans má geta að Jökulsá á Sólheimasandi skilur á milli sambandssvæði Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) og USVS.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sigurður mikla reynslu af íþróttastarfi. Hann var kosinn í stjórn UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ í október í fyrra. Frá árinu 2017 hefur hann verið knattspyrnuþjálfari hjá Ungmennafélaginu Kötlu og síðar hjá ungmennafélögunum Ármanni og Skafta, sem sameinuðust í Ungmennafélagið Ás. Hann hefur jafnframt verið í fararstjórn USVS á Smábæjaleikunum og á Unglingalandsmótum UMFÍ undanfarin ár. Nú síðast starfaði hann sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í Skaftárhreppi, sem var samstarfsverkefni Ungmennafélagsins Áss og Skaftárhrepps.
Sigurður er búsettur á Akureyri og leggur stund á sálfræði við Háskólann á Akureyri samhliða störfum sínum fyrir USVS. Hann mun engu að síður hafa reglulega viðveru á sambandssvæði USVS.
Sigurður segir margt spennandi framundan hjá USVS. Þar á meðal verður að gera USVS að Fyrirmyndarhéraði ÍSÍ og pússa ýmislegt til. Í framhaldinu er stefnan að styðja við aðildarfélög USVS ásamt fleiri verkefnum.
„Ég bý að þessari reynslu frá vel heppnaðri sameiningu Ármanns og Skafta þegar við fórum þar í gegnum fyrirmyndarverkefnið. Það er alveg sama hvort félögin eru stór eða lítil, það er alltaf gott að allt fólk hjá félaginu hafi hlutverk sín á hreinu, bæði stjórnarfólk og sjálfboðaliðar. Tilhlökkunin er mikil.“