Skinkur nutu sín í grasblaki

„Ég pantaði fimm hundruð skinkur og nú eru þær allar búnar í búðunum!“ æpti Ásta Dís Helgadóttir, sem sér um veitingastjórn á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um helgina. Hún var í öngum sínum. Afar góð sala á veitingum er í þeim fjölmörgum sölubásum sem settir hafa verið upp á mótsstöðum. Í gær var veðrið svo gott að þúsundir mótsgesta þurftu að svala þorsta sínum og hungri. Af þeim sökum seldust upp allar skinkusamlokur.
Einu skinkurnar í bænum á Egilsstöðum reyndust til skamms tíma vera liðið Skinkurnar, hópur 11-12 ára stúlkna, sem keppti meðal annars í grasblaki undir merkjum Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA). Gríðarlegt stuð var í Skinkuhópnum sem voru vel merktar UÍA á vellinum.
Sumar skinkusögur enda vel
Eins og í öllum góðum sögum endaði skinkuleit Ástu Dísar vel þegar leið á daginn og fann hún þetta ágæta álegg í nægu magni fyrir mótsgestina.
Aðra sögu er hins vegar að segja af Skinkunum á íþróttavellinum. Þær fylltu ekki stigatöfluna og lentu í 12. sæti í sínum flokki. Þær töpuðu aldeilis ekki gleðinni enda snýst Unglingalandsmótið um þátttöku og keppni á eigin forsendum. Þar skoruðu Skinkurnar öll stig í boði.
Skinkurnar frá UÍA eru langt í frá þær einu sem skíra lið sín skemmtilegum nöfnum. Á mótinu má sjá Sykurpabbana, Þrumurnar, CapyBara, Barca Girls, Bláberin, Orrana, Hrafnana, Litlu hvítu kjúklingana og mörg hress lið.
Nöfn liða má sjá í úrslitum á umfi.is.
Miklu fleiri myndir frá ýmsum greinum mótsins má sjá á mörgum stöðum.


