Snemmtæk sérhæfing eykur líkur á brottfalli
Börn sem prófa margar íþróttir þegar þau eru á aldrinum 10–15 ára eru mun líklegri til að vera áfram virk í íþróttum sem ungmenni. Sérhæfing ungra barna eykur hins vegar líkurnar á brottfalli þeirra úr íþróttum. Þetta er niðurstaða Peter Donahue, prófessors við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík.
Peter var með erindi á RIG-ráðstefnunni í dag þar sem hann fór yfir rannsókn sína á þátttöku Íslendinga í íþróttum. Greiningin byggir á gríðarlega umfangsmiklum skráningargögnum frá árunum 2003–2024 frá öllum íþróttafélögum landsins. Gögnin koma frá fyrirtækinu Abler úr skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ.
Í krafti gagnanna gat Peter varpað skýru ljósi á þróun, brottfall og flutning milli íþróttagreina.
Rannsóknin sýnir að heildarþátttaka í íþróttum hefur aukist en hlutföll milli íþróttagreina haldist stöðug. Brottfall var þó almennt meira meðal stúlkna en drengja. Hann vakti athygli á því að fleiri konur á aldrinum 30–40 ára hafi tekið að spila golf í kjölfar COVID-faraldursins. Ástæðan hafi verið sú að íþróttin hentaði vel fjarlægðarreglum á meðan faraldurinn geisaði.
Til viðbótar sýndu gögnin að iðkendur sem stunduðu aðeins eina íþrótt snemma á unglingsárum voru líklegri til að hætta alfarið en jafnvel þeir sem stunduðu enga íþrótt.
Svæðisbundinn samanburður sýndi lægsta brottfall á Norðvesturlandi en hæsta á höfuðborgarsvæðinu.
Mikilvægt er að nýta gagnasafnið betur, að sögn Peter.
„Við höfum aðeins rétt byrjað að skilja mynstrin. Nú þurfum við að kafa dýpra í ástæður brottfalls og hvernig við getum byggt upp betra íþróttaumhverfi,“ sagði hann.