Stefnumótun hafin innan íþróttahreyfingarinnar
Vinna er hafin við heildstæða stefnumótun fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi og hófst með formlegum hætti á fundi formanna sérsambanda og íþróttahéraða á Akranesi í nóvember síðastliðnum.
Stefnumótun er mikilvægt tæki til að skapa sameiginlega sýn, skýra forgangsröðun og styrkja stoðir íþróttastarfsins og umgjörð til framtíðar. Áskoranir og þarfir eru ólíkar eftir því hvort um er að ræða afreksstarf, grasrótarstarf, verkefni sem tengjast lýðheilsu og forvörnum eða almenna starfsemi félaganna. Með sameiginlegri vinnu getum við þó mótað stefnu sem tekur mið af þessari fjölbreytni og styrkir hreyfinguna í heild.
Í þessari vinnu felast mikil tímamót og um leið einstök tækifæri, þar sem íþróttahreyfingin í heild gengur nú sameiginlega til verks í því stóra og mikilvæga verkefni sem stefnumótun er. Umræða um þörfina fyrir slíka vinnu hefur verið mikil á vettvangi beggja samtaka, ÍSÍ og UMFÍ, og hafa stjórnir þeirra hvor um sig skipað stefnuráð og tilnefnt fulltrúa í sameiginlegan stýrihóp stefnumótunarinnar. Með því er lögð rík áhersla á sameiginlega ábyrgð, samráð og samvinnu um framtíð hreyfingarinnar. Í stýrihópi stefnumótunarinnar sitja fulltrúar tilnefndir af stjórnum ÍSÍ og UMFÍ.
Þau eru:
Kári Mímisson, ÍSÍ
Willum Þór Þórsson, ÍSÍ
Halla Margrét Jónsdóttir, UMFÍ
Helgi Sigurður Haraldsson, UMFÍ
Ljóst er að um er að ræða umfangsmikið og margþætt verkefni. Rödd grasrótarinnar er lykilatriði og árangur stefnumótunarinnar ræðst af því hversu vel okkur tekst að tryggja virka þátttöku og opið samtal við fulltrúa allrar hreyfingarinnar, óháð íþróttagreinum, búsetu, markmiðum með iðkun, efnahag, kyni, aldri og öðrum þáttum.
Ferlið í stefnumótunarvinnunni mun samanstanda af ólíkum vinnufundum og vinnustofum, greiningum, samtölum og markvissri gagnaöflun. Rík áhersla verður lögð á eignarhald allra innan hreyfingarinnar og að tryggja aðkomu sem flestra á einhverju stigi ferlisins. Ekki verður þó hjá því komist að í sumum tilvikum verði fulltrúar einstakra hópa leiddir saman til að vinna ákveðin verkefni. Í slíkum tilfellum verður ávallt tryggð aðkoma breiðari hóps áður en nokkuð verður endanlega ákveðið, og alltaf verður svigrúm fyrir umræðu, endurgjöf og frekari þróun.
Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að leggja verkefninu lið og hafa hugmyndir eða tillögur varðandi nálgun eða upplegg í stefnumótunarvinnunni, til að senda okkur tölvupóst.
Hægt er að senda hann á netföngin isi@isi.is og/eða umfi@umfi.is.
Á næstu vikum munum við leita til fulltrúa innan hreyfingarinnar og utan til þátttöku í næstu vinnustofum sem snúa að því að rýna betur og þróa þá markmiðasetningu sem grunnurinn var lagður að á fundinum í nóvember. Í kjölfarið á þessari vinnu verður svo boðað til samtals þar sem fulltrúum allra aðildarfélaga, sérsambanda og íþróttahéraða verður boðið að kynna sér fyrirliggjandi drög og taka þátt í umræðu og frekari þróun. Þeir fundir verða kynntir í framhaldinu og sömuleiðis næstu skref í stefnuvinnunni.
Nánari upplýsingar um framvindu verkefnisins verða kynntar eftir því sem vinnan þróast en við minnum á netföngin fyrir þá sem eru áhugasamir og vilja koma að ábendingum.
Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs og virkrar þátttöku ykkar í þessu mikilvæga verkefni, með það að markmiði að efla íslenska íþróttahreyfingu til framtíðar.
Áfram Ísland!