Fara á efnissvæði
26. nóvember 2025

Stefnumótun ÍSÍ og UMFÍ: Kraftur í hópnum

„Það er ótrúlegur kraftur í þessum hópi. Ég fann strax að þarna var komið saman hugsjónafólk með sameiginlega sýn, sem er tilbúið að bretta upp ermar og gera gott starf enn betra,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, ráðgjafi hjá fyrirtækinu Expectus ráðgjöf.

Hún stýrði fyrsta sameiginlega fundinum um stefnumótun ÍSÍ og UMFÍ, sem fram fór á formannafundi ÍSÍ í síðustu viku. 

Á fundinum var farið í sameiginlega vinnu eftir að stefnumótunin var samþykkt á íþróttaþingi ÍSÍ og sambandsþingi UMFÍ, en það síðast talda fór fram um miðjan október. 

Stefnt er að því að stefnumótunarferlið verði í  nánu samstarfi allra aðila innan hreyfingarinnar, grasrótarinnar og alla hagaðila. 

Ingibjörg segir stemninguna á fundinum hafa verið afar góða. 

„Í rauninni er fólk sammála um hlutverk og tilgang stefnumótunarinnar og íþróttahreyfingarinnar. Við heyrum ríkan vilja til að íþróttahreyfingin taki að sér stærra og meira hlutverk en verið hefur varðandi lýðheilsu og forvarnir samhliða þvi sem áfram verður unnið að öflugu grasrótarstarfi og þvi að efla afreksstarf.  Allt er þetta i þágu betra samfélags. Það er hjartað í verkefninu og ég er bjartsýn á framhaldið,“ segir hún. 

 

Á myndinni hér að ofan má sjá stilla sér upp á stefnumótunarfundinum, þá Lárus Blöndal, fyrrverandi forseta ÍSÍ, Willum Þór Þórsson, forseta ÍSÍ, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ.