Súper þátttaka á Unglingalandsmót UMFÍ

Afspyrnugóð skráning hefur verið á Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Egilsstöðum um næstu helgi. Rúmlega þúsund þátttakendur á aldrinum 11 – 18 ára voru skráðir til leiks þegar lokað var fyrir skráningu í greinar á miðnætti í gær. Þátttakendurnir skráðu sig í 5.429 greinar, sem er afskaplega gott og merkir að hver þátttakandi ætlar að taka þátt í mörgum mismunandi greinum.
Ljóst er eins og skráningin er nú að rúmlega 5.000 manns verða á Egilsstöðum að njóta verslunarmannahelgarinnar í íþróttum og afþreyingu.
Austfirðingar fjölmenna á mótið en hvorki fleiri né færri en 300 þátttakendur eru skráðir til leiks. Þetta er með mesta móti.
Afar góð skráning er í fjölmargar greinar. Algjör sprenging er í kökuskreytingum en 452 ungmenni ætla að keppast um að skreyta fallegustu og hugmyndaríkustu kökuna og 490 þátttakendur í grasblaki, sem jafngildir um 100 liðum.
Svipuðu máli gegnir um fleiri greinar. Þar á meðal eru tæplega 280 skráðir til leiks í pílukasti, um 50 í rafíþróttum, 80 í skák og hvorki fleiri né færri en 150 í krakkahreysti.
Afar góð skráning er sömuleiðis í grashandbolta, frjálsum íþróttum og klassískari greinum.
Nóg að gera alla mótsdagana
Unglingalandsmótið hefst á Egilsstöðum á fimmtudag og stendur fram á sunnudagskvöld 3. ágúst. Boðið er upp á 21 íþróttagrein og helling af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna frá morgni til kvölds. Öll kvöldin á mótinu verða tónleikar og meira fjör við tjaldstæði mótsins og í kringum Vilhjálmsvöll.
Fjölmargir opnir viðburðir eru í boði. Þar á meðal verður hægt að prófa ýmsar greinar, svo sem prikhesta, sem hafa slegið í gegn á hinum Norðurlöndunum.
Leikfélag Fljótsdalshéraðs ætlar að sýna leikritið Bugsy Malone í tvígang laugardaginn 2. ágúst í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og síðan verður opnuð sýning um íþróttaafrek Vilhjálms Einarssonar í Safnahúsinu.
Af nægu er að taka.
Allar upplýsingar um mótið og afþreyingu er að finna á umfi.is.


