Svæðisfulltrúar í öllum Farsældarráðum
Sá ánægjulegi áfangi náðist föstudaginn 14. nóvember síðastliðinn að Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins var formlega stofnað. Í ráðinu situr Hansína Þóra Gunnarsdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er fimmta farsældarráðið sem stofnað er á landsvísu. Fyrsta farsældarráðið sem var stofnað er farsældarráð Suðurnesja, sem sett var á laggirnar síðla í júní á þessu ári. Svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna eiga sæti í ráðunum á þeim stöðum sem þau hafa verið stofnuð.
Stofnfundur Farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins fór fram á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga í Garðaholti í Garðabæ.
Með stofnun ráðsins er stigið mikilvægt skref í átt að samstilltu átaki sveitarfélaga og ríkisstofnana um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.
Farsældarráðið er vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stofnun ráðsins festir í sessi markvisst samtal og aukna samvinnu milli þjónustuaðila ríkis og sveitarfélaga. Markmið ráðsins er að efla og samræma þjónustu við börn á höfuðborgarsvæðinu með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun.
Haft er eftir Guðmundi Inga Kristinsyni, mennta- og barnamálaráðherra, í tilkynningu að með stofnun Farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins hafi mikilvægum áfanga verið náð. „Farsældarráðið hjúpar helsta þéttbýliskjarna landsins og færumst við skrefi nær í að veita börnum samþætta þjónustu án hindrana um allt land,“ segir hann.
Þjónustuveitendur eiga aðild að ráðinu
Aðilar að ráðinu eru sveitarfélögin sex – Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes – en sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í þjónustu við börn þar sem þau bera ábyrgð á skólaþjónustu, leik- og frístundastarfi, félagsþjónustu og barnavernd.
Auk sveitarfélaganna eiga aðild að ráðinu Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, framhaldsskólarnir á höfuðborgarsvæðinu og íþróttahreyfingin á höfuðborgarsvæðinu.
Ráðið mun forgangsraða aðgerðum og móta fjögurra ára aðgerðaáætlun sem allir aðilar samþykkja.
Aðgerðirnar byggja á samvinnu þjónustuveitenda og tengjast öllum helstu þáttum farsældar: menntun, heilsu og vellíðan, félagslegri stöðu og lífsgæðum, öryggi og vernd, þátttöku og félagslegum tengslum. Sérstök áhersla verður lögð á snemmtæka íhlutun og samfélagslegar forvarnir.
„Þegar þjónustuaðilar vinna saman að sameiginlegum markmiðum eykst getan til að styðja börn og fjölskyldur á réttum tíma,“ segir Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri Farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins. „Samstarfið sem nú hefst byggir á traustri fagþekkingu og þeirri sannfæringu að farsæld barna sé sameiginlegt verkefni okkar allra.“
Vinna ráðsins byggir á gögnum og samráði
Ráðið mun nýta fyrirliggjandi gögn og m.a. byggja á víðtæku samráði sem þegar hefur átt sér stað. Þar má nefna niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, sem notaðar verða sem áttaviti í forgangsröðun og árangursmælingum. Þá nýtast ráðinu vel niðurstöður úr vinnustofum sem lögreglan hefur staðið fyrir í sveitarfélögunum þar sem starfsfólk lögreglu, heilsugæslu, sveitarfélaga, framhaldsskóla og íþróttafélaga hefur unnið saman að lausnum fyrir börn í viðkvæmri stöðu.
Einnig verður horft til aðgerðaáætlunar svæðisstöðvar íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu, sem unnin var í samstarfi við öll íþróttafélög á svæðinu og miðar að því að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna. Þá mun ráðið nýta greiningar frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) varðandi forvarnir, geðrækt og úrræði í grunnskólum. Samvinna innleiðingastjóra farsældar á höfuðborgarsvæðinu verður jafnframt mikilvæg í vinnunni, en þeir hafa greint helstu áskoranir sem tengjast samþættingu þjónustu við börn og ungmenni.
Farsældarráðin á landinu byggja á samningi mennta- og barnamálaráðuneytisins við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga sem undirritaður var í október 2024. Með samningnum skuldbundu öll sveitarfélög landsins sig til að hefja innleiðingu 5. greinar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmiðið er að börn og foreldrar fái þjónustu við hæfi, án hindrana og stofnun ráðanna markar mikilvægan áfanga í þeirri innleiðingu.
Á myndinni hér að ofan má sjá eftirfarandi:
Hansína Þóra Gunnarsdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu; Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar; Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu; Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar; Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar; Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri; Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins; Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps; Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs; Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar; Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS og fulltrúi framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu og María Káradóttir, staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við undirritun stofnsamninga í Garðaholti í Garðabæ.
Hér að neðan má sjá eftirfarandi á mynd:
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs; Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar; Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS og fulltrúi framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu og María Káradóttir, staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við undirritunina.