Fara á efnissvæði
07. janúar 2026

Þéttari samvinna í íþróttastarfi á Vestfjörðum

Íþróttahéruð á Vestfjörðum hafa eflt samvinnu sína með reglulegum fundum og nýjum verkefnum í samstarfi við svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna þar. Þessi samvinna miðar að uppbyggingu íþróttastarfs um allt svæðið og með auknu samtali hófst vinna við að móta sameiginlega stefnu í íþróttamálum fyrir svæðið í heild sinni. Birna Hannesdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna, lýsir því hvernig það var gert.

Íþróttahéruð á Vestfjörðum hafa á undanförnum misserum eflt samvinnu sína markvisst með mánaðarlegum fundum og nýjum samstarfsverkefnum með svæðisfulltrúum UMFÍ og ÍSÍ. Markmiðið er að styrkja og byggja upp gott íþróttastarf um allt svæðið; með auknu samtali, skýrari sýn og sameiginlegum aðgerðum.

„Við erum orðin mun sterkari heild og vinnum nú markvisst saman sem heild,“ segir Birna Hannesdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum. Hún segir næstu skref meðal annars felast í því að móta sameiginlegar aðgerðir í íþróttamálum í samráði við forsvarsfólk íþróttafélaga á Vestfjörðum sem og sveitarstjórnarfólk, auk þess sem fyrirhuguð er þarfagreining á íþróttamannvirkjum á svæðinu.

 

Sameiginleg stefnumótun farin af stað

Undirbúningur næstu skrefa byggir á stefnumótunarfundi íþróttahéraðanna á Vestfjörðum sem haldinn var á Ísafirði í október í fyrra. Fundurinn var haldinn í samstarfi svæðisfulltrúa Vestfjarða og héraðssambandanna á Vestfjörðum; Héraðssamband Hrafna-Flóka, Héraðssamband Vestfirðinga, Héraðssamband Bolungarvíkur og Héraðssamband Strandamanna. Tíu fulltrúar héraðanna fjögurra tóku þátt ásamt svæðisfulltrúum.

Á fundinum fóru fram líflegar og uppbyggilegar umræður um framtíð íþróttastarfs á Vestfjörðum. Guðmunda Ólafsdóttir stýrði stefnumótunarvinnunni og leiddi þátttakendur í gegnum SVÓT-greiningu, hópavinnu og umræðu um helstu áskoranir og tækifæri svæðisins. Í kjölfarið var unnin samantekt sem hefur nú verið send út til héraðanna til yfirlestrar.

Guðmunda lýsti ánægju sinni eftir fundinn og sagði afar jákvætt að sjá héruðin sameinast um að skapa sameiginlega sýn.

„Samtal og samvinna eru lykillinn að áframhaldandi uppbyggingu,“ sagði hún eftir fundinn.

 

Reglulegt samtal skapar ný tækifæri

Birna segir að fulltrúar íþróttahéraðanna muni ræða tillögur að næstu skrefum á mánaðarlegum fundi héraðanna síðar í janúar. Hún bætir við að margt hafi breyst á Vestfjörðum frá því svæðisfulltrúar hófu þar störf fyrir um ári síðan.

„Fyrsta skrefið var einfaldlega að kalla forsvarsfólk héraðanna saman. Það var vel tekið í þá hugmynd og í dag hittist hópurinn á mánaðarlegum fundum,“ segir Birna.

Áður hafi hvert hérað að mestu unnið í sínu horni, en með aukinni samvinnu hafi tengslin styrkst og vilji skapast til að ráðast sameiginlega í verkefnin sem liggja fyrir.

 

Borðtennis og aukin nálægð við minni svæði

Eitt af nýjum verkefnum er að fara í sameiginlegt innleiðingarverkefni þar sem markvisst er unnið að því að byrja með borðtennisæfingar á viðkvæmum svæðum á Vestfjörðum, þar sem íþróttastarf hefur verið misvirkt að undanförnu. Þar má nefna Bíldudal, Tálknafjörð, Drangsnes, Hólmavík, Suðureyri, Þingeyri, Súðavík og Flateyri. Verkefnið hlaut styrk úr Hvatasjóði íþróttahreyfingarinnar og er unnið í samstarfi við Borðtennissamband Íslands.

Auk þess munu svæðisfulltrúarnir á Vestfjörðum, Birna og Páll Janus Þórðarson, vera með mánaðarlega viðveru á völdum stöðum á svæðinu. Byrjað verður á Hólmavík og nágrenni.

„Með þessu viljum við styrkja samtalið við minni svæði, vera sýnilegri og nálgast fólk og félög betur,“ segir Birna að lokum og bætir við að fleiri verkefni séu í undirbúningi þótt enn sé of snemmt að greina nánar frá þeim.