Þingeyingar hlutu Fyrirmyndarbikar UMFÍ

Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ) hlaut Fyrirmyndarbikar UMFÍ í gærkvöldi. Gunnhildur Hinriksdóttir, framkvæmdastjóri sambandsins, tók við bikarnum fyrir hönd þess við slit Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum.
Hefð er fyrir því við slit mótsins að veita bikarinn þeim sambandsaðila UMFÍ, sem hefur verið til fyrirmyndar á mótinu í háttum og gjörðum.
Slitin fóru fram í troðfullum Bragga á tjaldsvæðinu við tjaldsvæði Unglingalandsmótsins. Þar komu fram DJ Ernir Daði, Magni Ásgeirsson og hljómsveit og VÆB-bræðurnir en öll héldu þau uppi gríðarlegu stuði.
Þegar VÆB lauk sínu setti steig Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, á sviðið og sleit mótinu.
Hann sagðist vona að allir mótsgestir hafi upplifað eitthvað sérstakt, sigur og áskoranir, gleði og lærdóm, nýja vináttu og sterkari tengsl.
„Það sem stendur upp úr er samveran – augnablikin með þeim sem okkur þykir vænst um, brosin, hláturinn og hlýjunni sem fyllti mótssvæðin. Það er hinn sanni galdur Unglingalandsmótsins og þessar minningar lifa áfram,“ sagði hann og hvatti fólk til að mæta á Unglingalandsmót UMFÍ þegar það verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina á næsta ári.
Eftir að Jóhann lauk máli sínu sagði hann bræðurna í VÆB veita eiginhandaráritanir á bak við húsið. Við það tæmdist Bragginn og voru um tíma tæplega 140 börn og ungmenni að bíða í langri röð eftir því að hitta VÆB-bræður.
Hér á myndinni má sjá röðina af þolinmóðum en óþreyjufullum aðdáendum VÆB bíða eftir eiginhandaráritunum.
