Fara á efnissvæði
12. desember 2025

Til hamingju með sundlaugarnar

„Ég óska öllum – móður minni og sundfólki – til hamingju með áfangann. Sundlaugamenningin er lifandi og tengir okkur saman,“ sagði Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, þegar hann ásamt fleirum fagnaði því að sundlaugamenning Íslands hefur verið viðurkennd sem lifandi hefð og er komin á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Hún er þar í flokki með franska baguette-brauðinu, belgískri bjórmenningu og finnskri sánahefð.

 

Hluti af daglegu lífi fólks

Sundlaugamenning á Íslandi var tilnefnd á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns í mars árið 2024. Óskað var umsagna úr ýmsum áttum, svo sem frá sveitarfélögum og félagasamtökum. UMFÍ greip tækifærið og skrifaði umsögn um málið. Þar kom fram að UMFÍ og ungmennafélög um allt land voru lykilafl í uppbyggingu sundlauga á Íslandi. Aðildarfélög UMFÍ á landsbyggðinni byggðu sundlaugar á stöðum þar sem heitt náttúrulegt vatn var til staðar, hvöttu til sundiðkunar og gerðu sund að eðlilegum hluta daglegs lífs. Með því að festa sund í sessi sem daglega venju stuðluðu UMFÍ og íþróttafélögin að heilbrigðum lífsháttum fólks. Margir félagar í íþróttafélögum hófu íþróttaferil sinn í sundlaugum.

Ráðuneytið ásamt Reykjavíkurborg stóðu fyrir kynningu um skráninguna á lista UNESCO í Vesturbæjarlaug í Reykjavík í dag. Þar var áfanginn tilkynntur með formlegum hætti og íslenskri sundlaugarmenningu fagnað. Þjóðminjasafnið og Árnastofnun sáu um undirbúningsvinnu við skráninguna ásamt mörgum fleirum. Logi þakkaði öllum sem að málinu komu auk Lilju Alfreðsdóttur, sem sat í hans ráðuneyti á sínum tíma.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri hélt ávarp við þetta tilefni í Vesturbæjarlaug í dag og minntist líka á móður Loga, sem var sundkennari um árabil. Heiða sagði þetta stóran dag og rifjaði upp að með viðurkenningunni sé sýnt fram á að sundlaugamenning á Íslandi sé einstök.

„Það er hluti af lífi fólks að mæta í sundlaugina sína,“ sagði hún og benti á að fólk á öllum aldri fari í sund, þar hittist fólk á jafningjagrundvelli.

„Hér verður líka til vinskapur, jafnvel ástarsambönd. Ég hef heyrt af nokkrum sem hafa orðið til í þessari laug,“ sagði borgarstjóri.

Sundlaugar landsins eru 120 talsins.

Grýla og jólasveinn - þó ekki Leppalúði - tóku þátt í viðburðinum í tilefni hátíðarinnar.

Takk ungmennafélagar fyrri ára

Fjöldi gesta var viðstaddur tilefnið í Sundlaug Vesturbæjar í dag. Þar á meðal var Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, og Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands, og Auður Inga Þorsteinsdóttir.

Þau Björn og Auður héldu sömuleiðis tölu við tilefnið. Björn hampaði viðurkenningunni og sagði hana ramma inn mikilvægi sundmenningar.

Auður rifjaði upp að sund hafi nánast frá fyrstu tíð verið lykilþáttur í landsmótum UMFÍ og er það enn í dag. Ungmennafélagar hafi byggt sundlaugar víða um land á sínum tíma og hrósaði hún þeim.

Í umsögn UMFÍ í fyrra er einmitt bent á að aðgengi að sundlaugum og íþróttaaðstöðu sé stór þáttur í ákvarðanatöku fjölskyldna þegar kemur að búsetu og námi. Það þyki eðlilegt og sjálfsagt. Margt fólk hittist daglega í sundlaugum landsins, bæði til æfinga og til félagslegra samskipta í heitu pottunum. Af því má vera ljóst að sundlaugar og sundiðkun hafa verið og eru stór hluti af íslenskri íþróttamenningu og munu vonandi halda því áfram í framtíðinni.

Bandaríska dagblaðið New York Times birti umfjöllun í vikunni um íslensku sundlaugarnar og annan óáþreifanlegan menningararf sem bættist við á lista UNESCO. Greinina má lesa hér:

Grein The New York Times

 

Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á viðburðinum í sundlaug Vesturbæjar.