Fara á efnissvæði
14. október 2025

UMFÍ sendir líflínu til lítilla íþróttahéraða í fjárþröng

Mörg smærri íþróttahéruð landsins glíma við alvarlega fjárhagslega stöðu. Samþykkt var á þingi UMFÍ um helgina að greiða 60 milljónir króna til héraðanna sem verst standa næstu tvö árin. Formaður UMFÍ segir mikilvægt að ríki og sveitarfélög styðji enn betur við íþróttastarf í landinu því farið er að ganga á grunnstoðir hreyfingarinnar.

„Það hriktir í stoðum sumra lítilla íþróttahéraða. Staðan er víða alvarleg. Á þingi okkar var krafa um að finna lausn og var leitast við að verða við því ákalli með því að styðja við þau í tvö ár með 60 milljón króna fjárframlagi. Þingfulltrúar vildu finna leiðir til þess að koma til móts við minni íþróttahéruðin. En áhersla á útfærslu mögulegs fjárhagsstuðnings var mismunandi á milli svæða. Sú ákvörðun að ganga á sjóði og eigið fé UMFÍ var því niðurstaðan,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.

Á 54. Sambandsþingi UMFÍ í Stykkishólmi um helgina var samþykkt tímabundin fjárhagsaðstoð úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ annars vegar og hins vegar með því að ganga á eigið fé UMFÍ. Aðgerðin er talin nauðsynleg til þess að dempa höggið sem félögin urðu fyrir vegna breytinga á útgreiðslu lottófjár sem samþykktar voru fyrir tveimur árum.

Fleiri um sömu kökusneiðar

Íþróttahéruð landsins eru héraðssambönd, ungmennasambönd og íþróttabandalög landsins. Á árum áður stóðu íþróttabandalögin utan við UMFÍ, en árið 2019 var samþykkt að veita Íþróttabandalagi Akraness (ÍA), Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) aðild að UMFÍ. Síðan þá hafa öll íþróttabandalög landsins gerst sambandsaðilar UMFÍ og því eru nú öll íþróttahéruð landsins aðilar að samtökunum. Aðildarumsóknin var á sínum tíma samþykkt með fyrirvara um að félögin fengju ekkert greitt úr sjóðum UMFÍ af lottópeningum fyrr en reglum yrði breytt í samvinnu ÍSÍ og UMFÍ og slíkt samþykkt á þingum beggja hreyfinganna. Það var síðan gert samhljóða árið 2023.

Lottógreiðslurnar eru arðgreiðslur frá Íslenskri getspá sem greiddar eru til UMFÍ, ÍSÍ og ÖBÍ í hverjum mánuði. Fjármagnið frá UMFÍ streymir svo að mestu áfram út til 25 íþróttahéraða landsins og þeirra um 480 íþróttafélaga sem eru innan þeirra. Á síðasta ári greiddi UMFÍ sambandsaðilum 325 milljónir króna.

UMFÍ á 13,3% í Íslenskri getspá á móti ÍSÍ, sem á 46,7% og ÖBÍ sem á 40%. Íslensk getspá greiddi út 2,9 milljarða króna í arð á síðasta ári sem sýnir mikilvægi þess fyrirtækis í fjáröflunarstarfi fyrir eigendurna. UMFÍ fékk í samræmi við eignarhluta 13,3% af upphæðinni, en af henni fara síðan um 67% beint til sambandsaðila og 7% í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ, sem deilt er út til sambandsaðila UMFÍ í formi styrkja.

Úthlutunarreglum um lottóframlagið var breytt á Sambandsþingi UMFÍ fyrir tveimur árum þar sem grunnhugmyndin var að skipting væri hlutfölluð í samræmi við fjöldatölur barna átján ára og yngri á hverju svæði fyrir sig. Við það fengu íþróttabandalög landsins einnig greitt eins og önnur íþróttahéruð af lottópeningunum. Við það að lottógreiðslurnar dreifðust eftir framangreindum reglum til fleiri sambandsaðila lækkaði greiðsla UMFÍ eðli málsins samkvæmt til allra þeirra sem fyrir voru frá því sem áður var. Smærri íþróttahéruð fundu verulega fyrir breytingunni en með tilkomu svæðisstöðva íþróttahéraða átti að koma til móts við þann tekjumissi að hluta með vinnuframlagi.

Brugðust hratt við því tíminn er útrunninn

Jóhann Steinar segir mörgum steinum hafa verið velt upp á þinginu og rýnt í ýmsar leiðir til að bæta stöðu illa staddra íþróttahéraða því vilji hreyfingarinnar til stuðnings þeim sem verst standa var skýr. Niðurstaðan á þingi UMFÍ varð sú að breyta ekki reglugerð um skiptingu lottógreiðslna enda er fjárhagsstaða annarra íþróttahéraða einnig þung.

„Staðan er nú með þeim hætti að héruðin, sérstaklega þau sem eru á fámennari stöðum, eru í verulegum vandræðum með að geta rekið sig og hætta er á að án aðstoðar stefni þau í félagslegt og fjárhagslegt þrot. Því er nauðsynlegt að finna leið til að tryggja rekstrarhæfi héraðanna, svo sem með betri stuðningi og hagræðingu,“ segir Jóhann Steinar.

Hann leggur áherslu á að sú niðurstaða sem samþykkt var sé neyðaraðgerð. UMFÍ geti ekki endurtekið slíka úthlutun án víðtækari breytinga og/eða niðurskurðar á þjónustu samtakanna.

„Við erum að ganga á sjóði okkar til að skapa rekstrargrundvöll og því er þetta ákall til ríkis og sveitarfélaga um að nýta tímann vel næstu tvö árin og koma enn sterkar að rekstri íþróttahéraða og íþróttafélaga um allt land. Komi það ekki til er hætta á að þung skörð verði hoggin í íþróttastarfið í landinu, ekki síst á landsbyggðinni,“ segir hann.

 

Fleiri fréttir og tillögur sem lagðar voru fyrir þingið og samþykktir má sjá á næstu dögum á vefsetri Sambandsþings UMFÍ:

Sambandsþing UMFÍ 2025

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá þinginu.