Undirbúningur í fullum gangi fyrir Unglingalandsmót

Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót er í fullum gangi og gengur mjög vel. Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu að bjóða keppendum og fjölskyldum þeirra á Egilsstaði um verslunarmannahelgina þar sem fram fer sannkölluð íþrótta- og fjölskylduhátíð.
Á dögunum fóru Ómar Bragi, framkvæmdastjóri mótsins ásamt Silju og Maríu, verkefnastjórum mótsins, í skoðunarferð um mótsvæðin. Með þeim í för voru Dagmar Ýr, sveitastjóri Múlaþings og Hugrún Hjálmarsdóttir, framkvæmda- og umhverfismálastjóri Múlaþings. Þar var farið vandlega yfir helstu keppnissvæði, aðstöðu og skipulag, allt með það að markmiði að tryggja sem besta aðstöðu og upplifun fyrir alla sem koma að mótinu – jafnt þátttakendur sem gesti.
Á myndinni hér að ofan má sjá þau Ómar Braga, Hugrúnu, Dagmar Ýr, Silju og Maríu.
Allir öruggir á Unglingalandsmóti
Við leggjum ríka áherslu á að öryggismál séu í lagi á mótinu og því hittust fulltrúar skipuleggjenda mótsins, fulltrúar lögreglunnar, sjúkraflutninga, slökkviliðs og fulltrúar Múlaþings á samráðsfundi. Þar var farið yfir allt sem snýr að öryggi og aðbúnaði svo allir geti notið mótsins í öruggu og traustu umhverfi.
Við erum stolt af því hversu margir koma að skipulagningu Unglingalandsmóts UMFÍ í góðri samvinnu og hlökkum til að taka á móti ykkur öllum um verslunarmannahelgina.
