Fara á efnissvæði
01. september 2025

Uppbókað í Skólabúðir á Reykjum

„Allir voru ánægðir sem komu í vikunni og kennararnir himinlifandi yfir endurbættri aðstöðu. Veðrið var líka svo gott, brakandi blíða og spegilsléttur hafflötur í Hrútafirði,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ á Reykjum. Fyrsti nemendahópurinn dvaldi á Reykjum í síðustu viku í fjóra daga.

Í Skólabúðirnar koma nemendur í 7. bekk af víðs vegar að af landinu. Fyrsti nemendahópurinn og kennarar þeirra voru flestir frá nokkrum grunnskólum á Vestfjörðum. Auk þess komu nemendur Fjallabyggð og Þórshöfn. Þeir síðasttöldu koma langt að og lögðu því af stað á sunndag. Allir nemendur og fylgdarlið sneri aftur til síns heima á fimmtudag.

 

Mikil uppbygging og breytingar

UMFÍ tók við rekstri Skólabúðanna á Reykjum í ágúst árið 2022. Strax var hafist handa við gríðarlega umfangsmiklar breytingar og endurbætur á öllum húsakosti enda flest komið til ára sinna. Verktakar á vegum UMFÍ og á vegum sveitarfélagsins Húnaþings vestra hafa lyft saman grettistaki og tekið allt í gegn enda þurfti orðið að taka þar til hendinni. Kostnaður við endurbætur hleypur orðið á tugum milljónum króna. Öll rúm og dýnur voru endurnýjaðar, gólfefni í nærri öllum húsum skipt út, öll herbergi í heimavist og kennslustofum voru innréttuð á nýjan leik með nýjum húsbúnaði. Gluggum hefur verið skipt út á nokkrum stöðum og verður ráðist í viðamikla viðgerð á þaki einu af húsunum mjög fljótlega.

Sigurður segir kennara sem hafa komið á Reyki í gegnum árin yfir sig hrifna af endurbótunum og nemendur skemmta sér konunglega við leik og störf.

„Það er ekki bara húsnæðið sem er í sífelldri endurnýjun og þróun heldur á það sama við um námið. Við erum alltaf að prófa nýjar hugmyndir í starfinu, fara leiðir sem virka vel annars staðar og við höfum kynnt okkur á ferðum erlendis. Það hefur skilað góðum árangri,“ heldur hann áfram.

 

Fullt fram á næsta ár

Uppbókað er út skólaár í Skólabúðum UMFÍ á Reykjum og eru væntanlegir þangað 3.600 nemendur í 7. bekk og starfsfólk skóla víða að frá landinu fram í byrjun næsta sumars. 

„Það er mikil eftirspurn eftir því að fá pláss fyrir nemendahópa í Skólabúðunum á Reykjum og ljóst að hróður þeirra berst hratt því nemendur grunnskóla sem koma í búðirnar segja öðrum nemendum frá þeim og þannig spyrjast þær út innan skólanna og til foreldra þeirra. Það eru því æ fleiri krakkar sem kætast yfir því að komast loksins í þær,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ á Reykjum.

Nemendur grunnskólanna koma alla jafna á mánudegi yfir vetrartímann í skólabúðirnar og dvelja þar við óformlegt nám í fjóra daga. Heilmikið er um að vera þar alla vikuna enda markmiðið að nemendurnir fái þar tækifæri til að efla leiðtogahæfni sína, læri aðferðir til að styrkja sjálfsmynd sína og vinna með styrkleika sína.