Fara á efnissvæði
03. október 2025

Vel heppnuð málstofa á Austurlandi

„Málstofan gekk mjög vel. Fólk var ótrúlega jákvætt og tilbúið að ræða saman,“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, annar tveggja svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Austurlandi. Svæðisstöðin, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) og Fjölskyldusvið Múlaþings stóðu fyrir málstofu um íþróttastarf barna og ungmenna í Múlaþingi á þriðjudag.

Á málstofuna var boðið öllum hagsmunaaðilum, fulltrúum íþróttafélaga, sveitarstjórnarfólki, foreldrum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem áhuga hafa á málinu.

27 mættu á málstofuna, 15 konur og 12 karlar. Jóhanna segir það hafa verið breiðan hóp, fínan þverskurð af þjálfurum, stjórnarfólki og foreldrum auk þess sem starfsmaður úr félagsþjónustunni sat málstofuna.

„Mætingin var góð frá deildum Hattar og tveimur öðrum aðildarfélögum UÍA innan Múlaþings sem eru með starf fyrir börn og unglinga. Við hefðum kannski viljað sjá aðeins fleiri foreldra og við söknuðum sveitarstjórnarfólks, en þetta var samt mjög flottur hópur,“ segir Jóhanna Íris.

 

Góð samvinna

Þátttakendur unnu verkefni tengd málinu saman í hópum. Borðstjórar voru frá stjórn UÍA ásamt deildarstjóra íþrótta- og tómstunda í Múlaþingi. Hansína Þóra Gunnarsdóttir, svæðisfulltrúi íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu, var kollegum sínum innan handar á svæðinu.

Undir lokin var lögð rafræn könnun fyrir þátttakendur og þeir spurðir að því hvaða fræðslu þeir óskuðu sér fyrir foreldra, þjálfara, stjórnarfólk og iðkendur.

 

Kortleggja stöðuna í sveitarfélaginu

Jóhanna var afar ánægð með málstofuna og afrakstur hennar.

„Við fengum bunka af góðum gögnum sem við erum þegar byrjaðar að vinna í. Gögnin hjálpa okkur við að draga upp skýra mynd af stöðunni á svæðinu, svo sem ástæður þess að sum börn taka ekki þátt í skipulögðu íþróttastarfi,“ segir hún og bætir við að gagnlegt verði að bera þau saman við niðurstöður úr könnun sem lögð verður fyrir foreldra í nóvember. Um svipað leyti verður líka fundað með nemendum í menntaskólanum og haldið áfram að kortleggja stöðuna í sveitarfélaginu.

„Meðbyrinn er mikill í Múlaþingi og hefur hann dreift úr sér niður á firði. Við stefnum á að fara í svipaða vinnu þar eftir áramót,“ segir hún. Horft er til þess að öll þessi vinna geti verið grunnur að stefnumótunarvinnu um íþróttamál innan sambandssvæðis UÍA í samstarfi við sveitarfélögin.

„Við erum öll jákvæð og höldum ótrauð áfram til að bæta starfið,“ segir hún að lokum.

 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá málstofunni.