Ylva er nýr formaður NordUng

Ylva Sóley Jóhanna Þórsdóttir Planman var á laugardag kjörin formaður norrænu ungmennasamtakanna Nordisk Ungdomsorganisation (Stytt: NordUng). Ylva Sóley á foreldra frá Svíþjóð og Íslandi, bjó ytra í æsku en hefur síðustu ár verið búsett í Mosfellsbæ. Ylva tekur við af Rene Lauritsen, sem verið hefur formaður Nord Ung frá árinu 2017.
Ylva er fyrsta konan til að setjast í formannsstól NordUng síðan Anna Ragnheiður Möller var formaður þeirra árin 2002 til 2012. Ylva situr í stjórn ungmennasamtakanna fyrir hönd sænska félagsins FNUF – Föreningarna Nordens Ungdomsförbund.
Samtök fyrir ungt fólk
NordUng var áður stytt sem NSU og hefur UMFÍ lengi verið samstarfsaðili samtakanna. Þetta eru samtök æskulýðsfélaga á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkja. Á þeim vettvangi hafa samtökin unnið mikið af sameiginlegum verkefnum sem tengja Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin saman.
Á meðal verkefnanna eru ungmennaskipti, ungmennavikur, markmiðsráðstefnur og ungbændaráðstefnur. Eitt af verkefnum NordUng á næstunni er skipulagning ungmennaviku á Grænlandi.
Samtökin hafa í gegnum tíðina fundað víða á Norðurlöndunum, þar á meðal nokkrum sinnum hér á landi og þá í þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík. Fundurinn um helgina var aðalfundur NordUng og fór hann fram í nýrri þjónustumiðstöð UMFÍ í Íþróttamiðstöðinni við Engjaveg. Stjórn Nord Ung hitti stjórn UMFÍ á föstudag og snæddi með henni kvöldverð. Aðalfundur NordUng fór svo fram daginn eftir.
Á fundinum tók Ylfa við af Rene auk þess sem nýr framkvæmdastjóri tók við keflinu.
UMFÍ á oft fulltrúa í stjórn NordUng. Fulltrúi UMFÍ og Ungmennaráðs UMFÍ í stjórn UngNord nú er Halla Margrét Jónsdóttir.
Hér má sjá stjórnir og starfsfólk UMFÍ og NordUng þegar þær hittust á föstudag. Fremst á myndinni má sjá Jóhann Steinar Ingimundarson, formann UMFÍ, við hlið Rene, fráfarandi formanns NordUng.