Fara á efnissvæði

Framboð til stjórnar UMFÍ

Sambandsaðili: Íþróttabandalag Akraness (ÍA)

 

Fyrri félagsstörf og bakgrunnur: 

Ég hef tekið virkan þátt í starfi UMFÍ um árabil, en ég hef setið í Ungmennaráði UMFÍ frá 2019 og gegnt formennsku síðustu tvö ár. Ég hef einnig setið í upplýsingatækninefnd UMFÍ frá 2023, í stjórn norrænu ungmennasamtakanna NordUng fyrir hönd UMFÍ frá 2022, auk þess að vera varafulltrúi Íslands í NORDBUK, barna- og ungmennanefndar Norrænu ráðherranefndarinnar á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið að einni fjölmennustu ungmennaráðstefnu landsins frá árinu 2009, en í formannssetu minni endurskipulögðum við í ráðinu ráðstefnuna í takt við ungmennafélagsandann. Ráðstefnan þróaðist þá úr Ungt fólk og lýðræði yfir í Ungt fólk og lýðheilsa þar sem við leggjum aukna áhersla á heilsu ungmenna, bæði félagslega, líkamlega og andlega, sem hefur eflt ráðstefnuna enn frekar.

Fyrir utan störf mín innan UMFÍ hef ég tekið virkan þátt í fjölbreyttu félagsstarfi, m.a. setið í stjórn /sys/tur hagsmunafélagi kvenna og kvára í tölvunarfræðideild HR, tekið þátt í stofnun Riddarar Kærleikans hreyfingarinnar, verið forseti Tónlistarklúbbs FVA, og stofnandi og forseti femínistaklúbbsins Bríetar í FVA.

Ég er menntuð tölvunar- og hugbúnaðarverkfræðingur með sérhæfingu í netöryggi og starfa sem upplýsingaöryggisráðgjafi. 

Áhugi minn á íþrótta- og æskulýðsmálum hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu, en ég spilaði fótbolta með ÍA í 13 ár og var fyrirliði í yngri flokkum. Ég bjó í Danmörku í þrjú ár á meðan ég stundaði meistaranám og kynntist þá íþróttahreyfingunni í Danmörku en ég var leikmaður Lyngby Boldklub tímabilið 2024/2025.

Annað sem frambjóðandi vill taka fram: 

Reynsla mín úr UMFÍ, íþróttum og félagsstörfum hefur kennt mér mikilvægi samtakamáttarins og hversu fjölbreytt og aðgengilegt íþrótta- og æskulýðsstarf skiptir ungmenni um land allt miklu máli. Ég er mikil liðsmanneskja og elska að vinna að sameiginlegum markmiðum með góðum hópi fólks, þá sérstaklega innan íþróttahreyfingarinnar. Ég vil leggja áherslu á að íþróttahreyfingin sé aðgengileg öllum, óháð bakgrunni, kyni, aldri, búsetu, kynhneigð og kynþætti.

Ég gef kost á mér í stjórn UMFÍ því mig langar að leggja mitt af mörkum til að efla þetta mikilvæga starf ungmennafélagsins enn frekar og tryggja að raddir ungs fólks fái að heyrast og eigi sæti við borðið.