Fara á efnissvæði

Framboð til stjórnar UMFÍ

Sambandsaðili: Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE)

 

Fyrri félagsstörf og bakgrunnur: 
Áhugi minn á félags- og bústörfum hefur fylgt mér lengi, ásamt mikilli námsfíkn. Frá 1977 hefur fjölskylda mín stundað sauðfjár- og hrossarækt í Litla – Dal og ég tekið þátt í félagsstörfum víða í samfélaginu. Fyrst í stjórn Búnaðarfélagi Saurbæjardeildar og í hestamannafélaginu FUNA í Eyjafjarðarsveitar. Einnig gengt formennsku í Norðurlandsdeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og setið í aðalstjórn FÍH. Jafnframt var ég formaður nemendafélagsins Eyrar í Heilbrigðisvísindadeild HA. 

Starfsreynsla mín er mjög fjölbreytt og menntun mín margþætt. Aðalstarfið hefur verið í hjúkrun og í kennslu, þá er ég menntuð sem iðjuþjálfi og með BA í lögfræði frá HA. Einnig lokið meistaragráðum í hjúkrun, í kennslufræðum og lýðheilsu (MPH).

Annað sem frambjóðandi vill taka fram: 
Í laganámi mínu lagði ég mikla áherslu á að fræðast um Mannréttindasáttmála Evrópu og þar með samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. 

Með lögfestingu ,,Farsældarlaga” eða laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hér á landi, sem tóku að fullu gildi 1. janúar 2022, hafa áherslur á réttindi barna og foreldra, á Íslandi, tekið nýja og jákvæða stefnu. Markmið laganna er að samráð og samþætting verði til farsældar fyrir börnin og foreldrana á öllum þáttum þjónustu, hjá öllum þjónustuaðilum, hvort sem þeir eru á ábyrgð ríkisins, sveitafélaga eða félagasamtaka, þ.m.t. UMFÍ.

Hef ég mikinn metnað fyrir að UMFÍ taki virkan þátt í að innleiða ,,Farsældarlögin” í allri þjónustu sinni við börn og iðkendur innan aðildafélaganna. Tel ég afar mikilvægt skref á þeirri vegferð að tillögur stjórnar um starfsstöðvar verði samþykktar á þessu Sambandsþingi. Sérstaklega þar sem tímabundinn fjárstuðningur ríkisins til verkefnisins rennur á næsta ári.

Hef ég áhuga á að taka virkan þátt í því og bíð mig fram til starfa í stjórn á næsta kjörtímabili 2023-2025.