Framboð til stjórnar UMFÍ
Sambandsaðili: Ungmennasamband Vestur Skaftafellssýsla (USVS)

Fyrri félagsstörf og bakgrunnur:
Ég hef unnið í þágu barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi fyrir ungmennafélögin í Vestur-Skaftafellssýslu frá árinu 2017. Í ýmsum hlutverkum, sem starfsmaður stjórnar, þjálfari og sjálfboðaliði. Ég hef hlotið viðurkenningar fyrir störf mín, Grasrótarpersóna ársins hjá Knattspyrnusambandi Íslands árið 2024 og hlaut Starfsmerki UMFÍ á ársþingi USVS vorið 2025. Hef verið í fararstjórn fyrir USVS á Unglingalandsmótum síðastliðin ár, meðal annars árin 2022 og 2023 þegar USVS hlaut Fyrirmyndarbikar UMFÍ.
Ég lifi fyrir það að gefa af mér til samfélagsins og þykir hvergi betra að gera það en innan Ungmennafélagshreyfingarinnar. Að tilheyra þessari hreyfingu hefur mótað mitt líf og gefið mér góð gildi út í lífið. Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára hef ég öðlast dýrmæta reynslu af störfum innan hreyfingarinnar. Ég hef haldið utan um mótahald með öllu sem því fylgir, ég leiddi vinnu við sameiningu Ungmennafélaganna Ármanns og Skafta í Skaftárhreppi árið 2024 og fór í nokkuð umfangsmikla vinnu við gerð gæðahandbókar fyrir félagið sem skilaði sér í því að hið ný stofnaða Ungmennafélagið ÁS komst í hóp Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ í lok árs 2024. Ég hef ávallt lagt áherslu á það í mínum störfum að skapa vettvang þar sem allir geta tekið þátt og að virkja sem flesta til þátttöku. Það tel ég vera einn af lykilþáttunum í því hvað mér hefur vegnað vel í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur og hlotið viðurkenningar fyrir.
Ég hef ekki aðeins gefið af mér til barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi því á vordögum árið 2025 kom út mín fyrsta bók ("Ég er ekki fullkominn!") þar sem ég segi frá reynslu minni af baráttu við hamlandi kvíða sem ungur maður. Mitt fremsta markmið með útgáfu bókarinnar er að gefa af mér til barna og ungmenna sem feta í svipuð spor. Í framhaldi af þessu hef ég svo farið af stað með fyrirlestraröð þar sem ég segi mína sögu frá botninum og til þess frábæra lífs sem ég á í dag. Ég starfaði sem Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í Skaftárhreppi frá árs byrjun 2023 en lét þar af störfum nú í ágúst. Um þessar mundir stunda ég nám í Sálfræði við Háskólann á Akureyri.
Annað sem frambjóðandi vill taka fram:
Ungmennafélagshreyfingin er eitthvað það flottasta og besta sem við eigum í íslensku samfélagi, vettvangur sem býður upp á ótal möguleika samfélaginu til heilla. Það er ekki spurning að Ungmennafélagshreyfingin stendur fyrir einhverri þeirri bestu forvörn sem við eigum í íslensku samfélagi, sem er skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf sem eflir andlega, líkamlega og félagslega heilsu.
Ég býð fram starfskrafta mína til að styðja áfram við það góða starf sem hefur verið unnið en jafnframt að leggja mitt af mörkum til að efla starf UMFÍ enn frekar inni í framtíðina, með miklu þakklæti fyrir allt það frábæra sem þessi hreyfing hefur gefið mér út í lífið.