Fara á efnissvæði

Framboð til stjórnar UMFÍ

Sambandsaðili: Ungmennasambandið Úlfljótur (USÚ)

 

Fyrri félagsstörf og bakgrunnur: 
Ég er fæddur á Höfn og uppalinn á kúa- og fjárbúi í Hornafirði. Ég tek enn nokkurn þátt í búskap foreldra minna. Ég mætti á aðalfund Ungmennafélagsins Mána í Nesjum í Hornafirði í mars 2005, með það fyrir augum að utandeildarknattspyrnuliðið sem ég var þá í, fengi að spila sína heimaleiki á Mánavelli. Ég var umsvifalaust kosinn í stjórn, fyrst sem meðstjórnandi til eins árs, þá var ég ritari í fimm ár, svo formaður í eitt og hálft ár og loks meðstjórnandi á ný til 2020. 

Í apríl 2011 var ég kosinn í stjórn USÚ og hef gegnt stöðu gjaldkera síðan.

Ég hef þrisvar setið í Unglingalandsmótsnefndum, fyrir mótin á Höfn 2013 og 2019, auk mótsins á Egilsstöðum 2017.

Ég var kjörinn í varastjórn UMFÍ 2015, sat sem varamaður í tvö kjörtímabil, og var svo kjörinn í stjórn 2019, þar sem ég hef gegnt hlutverki ritara síðan. Auk starfa minna sem ritari hef ég m.a. verið formaður Sjóða- og fræðslunefndar undanfarið kjörtímabil og þar með stýrt starfi fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ og umhverfissjóðs UMFÍ, minningarsjóðs Pálma Gíslasonar.

Ef horft er til starfa utan ungmennafélagshreyfingarinnar, þá sat ég í stjórn Hvannar – starfsmannafélags Vatnajökulsþjóðgarðs árin 2019-2021, en ég hef starfað fyrir þjóðgarðinn síðan 2011.

Annað sem frambjóðandi vill taka fram: 
Ég tel afar mikilvægt að raddir smærri sambandsaðila eigi rödd við stjórnarborð UMFÍ. USÚ er vissulega landfræðilega stórt og íbúum er að fjölga, en það breytir því ekki að USÚ er í neðri hluta listans yfir skattskylda félaga. Ég tel líka afar mikilvægt að raddir ungs fólks heyrist við sama borð og þó ég sé orðinn 36 ára, er ég yngsti frambjóðandi til aðalstjórnar að þessu sinni.